Sílemaðurinn Alexis Sanchez verður kynntur hjá Inter á morgun en félagið kaupir hann frá Manchester United. Giuseppe Marotta, framkvæmdastjóri Inter, staðfesti þetta við Sky Italia í kvöld.
Sanchez var á láni hjá Inter frá Manchester United á leiktíðinni en lánssamningurinn rann út á dögunum.
Inter hefur verið í viðræðum við United um kaup á leikmanninum en ítalskir fjölmiðlar fullyrða að Inter greiðir United ekki krónu fyrir hann.
Sanchez á tvö ár eftir af samningnum hjá United en talið er að það myndi kosta United 60 milljónir punda að halda honum næstu tvö árin.
Inter hefur samþykkt að greiða honum 130 þúsund pund á viku, sem er töluvert lægri laun en hann þénaði hjá United.
„Við erum að ganga frá kaupum á Alexis Sanchez frá Manchester United. Það kemur tilkynning frá félaginu á morgun," sagði Marotta við Sky.
Athugasemdir