Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
banner
   fim 05. september 2024 11:36
Elvar Geir Magnússon
Höddi Magg stýrir Vellinum - Tómas Þór hættur hjá Símanum
Hörður Magnússon er tekinn við Vellinum.
Hörður Magnússon er tekinn við Vellinum.
Mynd: Síminn
Tómas Þór Þórðarson.
Tómas Þór Þórðarson.
Mynd: Baldur Kristjánsson
Síminn hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að Hörður Magnússon sé tekinn við stjórnartaumunum á Vellinum á Síminn Sport, samantektarþættinum þar sem hver umferð í ensku úrvalsdeildinni er krufin.

Tómas Þór Þórðarson sem hefur starfað í fimm ár sem ritstjóri enska boltans lætur af störfum.

Hér að neðan má sjá fréttatilkynninguna í heild:

Hörður Magnússon stýrir Vellinum hjá Símanum
Íþróttafréttamaðurinn ástsæli, Hörður Magnússon, er nýr stjórnandi Vallarins þar sem farið er yfir allt það helsta hverju sinni úr enska boltanum. Hörður mun einnig lýsa fjölda leikja sem verður að teljast gleðiefni enda hefur Hörður verið einn vinsælasti lýsandi landsins um langt árabil.

Þættinum hefur síðustu ár verið stýrt af Tómasi Þór Þórðarsyni sem hefur ákveðið að snúa sér að öðrum verkefnum.

Birkir Ágústsson, dagskrárstjóri innlendrar dagskrárgerðar hjá Símanum:
„Við erum afskaplega spennt að fá Hörð til liðs við okkur og við trúum því að áhorfendur muni taka vel í þær áherslubreytingar sem hann færir okkur enda Hörður hokinn af reynslu þegar kemur að bæði dagskrárgerð sem og lýsingu leikja. Ástríða hans og áhugi á fótbolta mun skila sér hratt og vel á skjáinn. Að sama skapi þökkum við Tómasi Þór kærlega fyrir óeigingjarnt starf síðustu ár og frábært samstarf og óskum honum alls hins besta í hverju sem hann tekur sér fyrir hendur.“

Hörður Magnússon:
„Ég tek við keflinu úr góðum höndum og er gífurlega spenntur að snúa aftur í enska boltann, besta sjónvarpsefni í heimi. Með nýjum manni í brúnni koma nýjungar, ný andlit og ný tímasetning en Völlurinn verður framvegis á mánudagskvöldum. Ný tímasetning mun gera okkur kleift að gera enn betur og kryfja málin til mergjar. Sömuleiðis er ég fullur tilhlökkunar að setjast niður við hljóðnemann og lýsa stórleikjum enska boltans beint heim í stofu.“

Tómas Þór Þórðarson:
„Það er ekki léttvæg ákvörðun að stíga frá borði núna eftir fimm ára starf. Ég er afskaplega stoltur af mínum fimm árum hjá Símanum þar sem ég hef unnið með frábæru fólki og fengið einstakt tækifæri til að byggja eitthvað upp frá grunni. Þetta hefur verið einstakur tími sem nú tekur enda. Ég óska mínu fólki alls hins besta í framtíðinni og þakka kærlega fyrir mig.“
Athugasemdir
banner
banner
banner