Óskar Hrafn Þorvaldsson var svekktur eftir naumt tap gegn Zorya Luhansk frá Úkraínu í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í dag.
Lestu um leikinn: Breiðablik 0 - 1 Zorya Luhansk
Blikar töpuðu 0-1 á Laugardalsvelli en fengu nokkur tækifæri til að jafna leikinn og næla sér í sitt fyrsta stig í Evrópukeppni.
„Þegar þú ert kominn á þetta stig þá verðuru bara að nýta það sem þú færð. Við vorum að koma okkur í frábærar stöður en svo vantaði einhvern veginn herslumuninn og það er bara eitthvað sem við þurfum að laga. Það er endalaus vinna að bæta gæðin á síðasta þriðjung," sagði Óskar eftir tapið.
„Við vorum opnir á köflum en þetta er það sem við erum. Við sækjum sjálfsmynd okkar í að sækja og vera djarfir og hugrakkir. Þú getur ekki bæði verið djarfur og hugrakkur og verið svo með belti og axlarbönd og reipi utan um þig í leiðinni. Þetta erum við. Einhverjir vilja að við séum varkárari og betur skipulagðir þegar við töpum boltanum en við erum svona, við reynum að pressa hátt. Auðvitað er ýmislegt sem við þurfum að bæta."
Breiðablik er án stiga eftir tvær umferðir, en liðið tapaði 3-2 gegn Maccabi Tel Aviv í fyrstu umferð.
Athugasemdir