„Við töpum leiknum 3-0 og þá töpum við honum sanngjarnt. Fyrri hálfleikurinn fannst mér dapur af hálfu FH að ýmsu leyti. Þróttararnir bara sterkari en við,“ sagði Guðni Eiríksson, þjálfari FH, eftir tap gegn Þrótti í dag.
Lestu um leikinn: FH 0 - 3 Þróttur R.
„Mér fannst við koma nokkuð öflugar inn í seinni hálfleik, lokuðum betur á þær og náðum að ógna þeim að einhverju leyti meira en að sama skapi vorum við ekki nógu beittar fyrir framan mark andstæðingsins.“
„Þegar að Þróttur skorar þriðja markið er það game over, við hefðum þurft að skora til að koma okkur almennilega inn í leikinn.“
FH endar tímabilið í 6. sætinu. „Ég er sáttur við tímabilið. Það er algjörlega á pari við það sem við settum og lögðum upp með. Við vorum nýliðar í fyrra og það er bara þannig að þegar maður fer inn í ár tvö, það er tricky ár. Markmiðið var að festa sig í sessi í deildinni og helst að vera í top 6 þegar að skiptingu kæmi og við gerðum það.”
Guðni var einnig spurður út í næsta tímabil og hvort að hann væri byrjaður að hugsa út í það. „Öll þessi úrslitakeppni hefur farið í það að hugsa framtíðina og hvernig við ætlum að mæta til leiks að ári. Það er ljóst að við erum í tröppugangi og við ætlum ekki að stoppa í tröppunni. Við tókum gott skref með því að fara upp um deild og tókum gott skref með því að stabílisera okkur og nú er það að taka næsta skref og það er að gera meira en að vera miðlungslið í deildinni.”
Viðtalið við Guðna má sjá í heild sinni í spilaranum fyrir ofan.