Íslenska U17 landsliðið er komið á næsta stig undankeppni EM en liðið lenti í öðru sæti í riðlinum sem spilaður var hér á landi. Í dag mættu strákarnir Spáni í lokaleiknum en fyrir hann var ljóst að þessi tvö lið færu áfram.
Niðurstaðan varð 2-2 jafntefli í kvöld eftir að Ísland vann sannfærandi sigra gegn Norður-Makedóníu (4-1) og Eistlandi (3-1) í hinum leikjunum. Lúðvík Gunnarsson þjálfari U17 landsliðsins er að vonum ánægður með árangurinn.
Niðurstaðan varð 2-2 jafntefli í kvöld eftir að Ísland vann sannfærandi sigra gegn Norður-Makedóníu (4-1) og Eistlandi (3-1) í hinum leikjunum. Lúðvík Gunnarsson þjálfari U17 landsliðsins er að vonum ánægður með árangurinn.
Lestu um leikinn: Ísland U17 2 - 2 Spánn U17
„Við erum með hörkulið, marga flotta stráka og marga X-faktora. Það eru margir komnir út og ég er alveg öruggur á því að það eru fleiri á leiðinni," sagði Lúðvík við Fótbolta.net eftir leikinn í kvöld en sex í íslenska hópnum eru hjá dönskum félögum
„Við vorum ekkert hræddir, við þorðum að stíga á þá og þorðum að spila. Það var bara ekki bara leið eitt. Þegar við erum með svona flotta gaura er mikilvægt að menn þori að spila fótbolta. Svona leikur sýnir að þeir geta spilað við hvaða lið sem er. Ég er ógeðslega stoltur af þessum gæjum."
Gunnar Orri Olsen sem er hjá FC Kaupmannahöfn jafnaði í 2-2 á 84. mínútu og svo hefði annar FCK strákur, Viktor Bjarki Daðason, getað skorað sigurmarkið í lokin en þá skaut hann framhjá úr hörkufæri.
„Við hefðum getað stolið þessu í restina, Viktor Bjarki var óheppinn. Hann fékk boltann í sköflunginn. Egill (Orri Arnarsson) bjargaði okkur tvisvar og Siggi markvörður (Sigurður Jökull Ingvason) stóð sig frábærlega. Spænska liðið er hrikalega gott en við vorum alltaf inní þessu og náðum ógna. Þetta var flottur leikur."
Dregið verður í næsta stig undankeppninnar í desember og Lúðvík er spenntur fyrir því að sjá hverjir mótherjar Íslands verða, og hvar sá riðill verður leikinn.
„Frábært að fá að spila þennan riðil á Íslandi, það er ekki oft sem það gerist. Drengirnir hafa elskað það, vel hugsað um okkur á hótelinu og Siggi Dúlla er í öllum hlutverkum í undirbúningi. Teymið sem var með mér var geggjað. Þetta er spennandi hópur sem er ógeðslega gaman að vinna með."
Ýmislegt fleira kemur fram í viðtalinu við Lúðvík sem sjá má í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir