Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   lau 05. desember 2020 17:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Víðir Sig: Endurkomur eru alltaf hættulegar
Víðir Sigurðsson.
Víðir Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íþróttafréttamaðurinn reyndi Víðir Sigurðsson, íþróttastjóri Morgunblaðsins, spjallaði við útvarpsþáttinn Fótbolti.net á X977 í dag.

Hann ræddi þar meðal annars um leitina að næsta landsliðsþjálfara og segir að flottur kostur yrði að fá Lars Lagerback aftur.

„Það er mjög áhugavert að Lars okkar sé kominn aftur í myndina. Ef hann er í alvöru tilleiðanlegur í að koma aftur til starfa hjá KSÍ, hvort sem það yrði sem aðalþjálfari landsliðsins eða mentor bak við næsta þjálfara, þá vitum við nákvæmlega hvað hann hefur upp á að bjóða. Hann er flottur kostur," segir Víðir.

Lagerback gerði magnaða hluti fyrir íslenskan fótbolta og möguleiki á að orðspor hans laskist ef ekki gengur vel í endurkomunni.

„Endurkomur eru alltaf hættulegar. Við vitum hvaða væntingar eru gerðar til manna sem hafa verið áður. Lars er hálfpartinn í guðatölu hérna fyrir sinn árangur og gríðarlega vinsæll. Hann kom öllu landsliðsstarfinu í allt annan farveg, breytti öllum vinnubrögðum og kom því á þessa slóð sem Heimir fylgdi síðan."

Besti kosturinn að Arnar verði áfram í sínu starfi
Varðandi önnur nöfn sem koma til greina talar Víðir um Frey Alexandersson. „Freyr hlýtur að vera áfram í myndinni, með næsta þjálfara eða hugsanlega sem næsti þjálfari," segir Víðir.

Arnar Þór Viðarsson hefur mikið verið nefndur en Víðir telur best að hann haldi áfram sem yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ og þjálfari U21 landsliðsins.

„Arnar er alveg kostur. Ég held hinsvegar að besti kosturinn sé að hann verði áfram í sínu starfi og með U21 landsliðið. Það er náttúrulega frábær árangur þar að komast á lokakeppnina. Ég tel ekki rétta skrefið að hann komi akkúrat núna inn í A-landsliðið en hann gæti þó eflaust orðið hluti af stærra teymi. Það fer eftir því hvernig þessu er stillt upp," segir Víðir.

Í viðtalinu er einnig spjallað um Íslensk knattspyrna 2020 en bókin kemur í verslanir seinna í þessum mánuði.
Landsliðsumræða - Trúnaðarbrestur og þjálfaraleit
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner