Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 06. febrúar 2021 21:56
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: Everton jafnaði á síðustu sekúndunni gegn Man Utd
Calvert-Lewin fagnar jöfnunarmarki sínu.
Calvert-Lewin fagnar jöfnunarmarki sínu.
Mynd: Getty Images
Bruno Fernandes skoraði glæsilegt mark í fyrri hálfleik.
Bruno Fernandes skoraði glæsilegt mark í fyrri hálfleik.
Mynd: Getty Images
Manchester Utd 3 - 3 Everton
1-0 Edinson Cavani ('24 )
2-0 Bruno Fernandes ('45 )
2-1 Abdoulaye Doucoure ('49 )
2-2 James Rodriguez ('52 )
3-2 Scott McTominay ('70 )
3-3 Dominic Calvert-Lewin ('90 )

Manchester United og Everton gerðu jafntefli í ótrúlegum fótboltaleik í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Leikurinn byrjaði vel fyrir heimamenn því þeir tóku forystuna á 24. mínútu þegar Edinson Cavani skoraði með skalla eftir frábæra fyrirgjöf Marcus Rashford.

Undir lok fyrri hálfleiksins bætti Bruno Fernandes við marki fyrir Man Utd með skoti fyrir utan teigs. Virkilega fallegt mark frá Portúgalanum sem hefur reynst Rauðu djöflunum ótrúlega vel. Áður en flautað var til hálfleiks fékk Dominic Calvert-Lewin dauðafæri til að jafna en setti boltann fram hjá markinu.

Carlo Ancelotti fór vel yfir málin með sínum mönnum í hálfleik því þeir mættu ótrúlega vel inn í seinni hálfleikinn. Abdoulaye Doucoure minnkaði muninn á 49. mínútu eftir að David de Gea sló boltann beint fyrir fætur hans í teignum. James Rodriguez jafnaði svo metin stuttu síðar.

Mögnuð byrjun á seinni hálfleiknum hjá Everton og á 69. mínútu kom Gylfi Þór Sigurðsson inn á sem varamaður. Stuttu eftir að íslenski miðjumaðurinn kom inn á, þá skoraði Scott McTominay fyrir United með skalla eftir aukaspyrnu. Robin Olsen átti að gera mun betur í marki Everton en fótavinnan hjá honum var vægast sagt ekki góð. Jordan Pickford var ekki með Everton í dag vegna meiðsla og því var Olsen í markinu.

Þetta reyndist ekki sigurmarkið því Everton jafnaði metin á síðustu sekúndu leiksins. Everton fékk aukaspyrnu og sendi alla sína menn fram, þar á meðal Olsen í markinu. Boltanum var spyrnt inn á teiginn og þar barst hann á Calvert-Lewin, sem hafði klúðrað dauðafæri undir lok fyrri hálfleiks, en núna skoraði hann.

Þetta var nánast síðasta snerting leiksins. Lokatölur 3-3. United var sterkari aðilinn í leiknum en það er ekki alltaf spurt að því. Man Utd er í öðru sæti, tveimur stigum á eftir Manchester City, en City á tvo leiki til góða. Everton er í sjötta sæti með 37 stig.

Önnur úrslit í dag:
England: Watkins tryggði Villa sigur á Arsenal
England: Dramatískur sigur Newcastle - Jói Berg skoraði í jafntefli
England: Markalaust í Lundúnaslag Fulham og West Ham
Athugasemdir
banner
banner
banner