Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 06. júní 2021 14:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ekki bara byrjaðir að banka á dyrnar, þeir eru búnir að opna hurðina"
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Eins og ég sagði strax eftir leik, þá vorum við ekki mjög ánægðir með frammistöðuna," sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, á fréttamannafundi í dag.

Hann var þar að tala um leikinn gegn Færeyjum í síðustu viku. Naumur sigur vannst en frammistaðan var ekki upp á marga fiska.

„Við vorum ánægðir með að sigla sigri í hús. Tilfinningin sem var bæði í hálfleik og eftir leik, maður fékk hana staðfesta þegar við fórum að greina leikinn og rýna í tölfræði. Þá kom í ljós að við vorum skrefinu á eftir. Það sem við tökum úr þessum leik var að við töpuðum of mikið af einvígum, Færeyingarnir voru grimmari en við. Það eru hlutir sem við þurfum að laga. Það er ómögulegt að spila góða fótboltaleiki þegar maður er ekki góður í grunnvinnunni; grunnvinnan er barátta og að vinna einvígi."

„Við lögðum upp í þetta ferðalag með að vinna í okkar leikstíl og stimpla hann betur inn. Ég sagði eftir Mexíkó leikinn að það er mjög mikilvægt að hafa þessa reynslumeiri leikmenn með í för. Það er ómögulegt að spila með átta unga leikmenn og þrjá reyndari, það er of mikið af því góða. Annar punktur sem ég tók út úr Færeyjaleiknum er það að við fórum úr sjö reyndari leikmönnum og fjórum ungum í sex reyndari og fimm yngri. Það getur verið ein af ástæðunum fyrir því að við erum aðeins 'off'."

„Þessi landsliðsreynsla með A-landsliði er allt öðruvísi en bara það að spila með U21 landsliðinu. Við erum að reyna að þróa liðið og leikstílinn en það er ómögulegt að gera það án þess að vera með okkar reyndari og betri leikmenn inn á vellinum."

Margir ungir og óreyndari hafa fengið tækifæri í þessu landsliðsverkefni og Arnar segir það af hinu góða.

„Ég er rosalega ánægður með ferðina hingað til. Ég er mjög ánægður með þá ákvörðun að fara út í þetta Dallas ævintýri. Það gaf okkur mjög mikið. Við erum á degi tíu og við erum búnir að geta farið í gegnum sóknar- og varnartaktík ansi oft. Við erum komnir á þann stað í ferðinni að við getum farið að einbeita okkur að einstaklingsbundnum samtölum. Við getum sýnt þeim einn á einn hvað mætti betur fara og hvar þeirra styrkleikar liggja. Þessi gluggi og þessir þrír leikir munu verða til þess að það munu leikmenn - sem eru núna með okkur - sem eru ekki bara byrjaðir að banka dyrnar, þeir eru búnir að opna hurðina. Það er þeirra að stíga inn."

Ísland mætir Pólland á þriðjudag í síðasta leiknum í þessu verkefni.
Athugasemdir
banner