„Mjög gott stig á endanum. Þetta var skemmtilegur leikur, mikið af mistökum hjá okkar mönnum og eðlilega kannski. Á endanum sýndum við gríðarlegan karakter að koma til bara tvisvar." Sagði Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkinga eftir að liðið hans gerði 2-2 jafntefli við Stjörnuna í kvöld.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 2 Stjarnan
Víkingar voru frekar þungir í leiknum enda nýlentir á landinu eftir að hafa verið í Kýpur þar sem þeir voru að spila í Sambandsdeildinni síðasta fimmtudag.
„Ég hef mikla virðingu fyrir knattspyrnuáhugamönnum og þeir eru örugglega gáfuðustu stuðningsmenn í heimi þegar kemur að þeirra íþrótt. Þannig ég held að þeir sjá alveg hvað er í gangi og það er ekkert fyrir mig að væla yfir. Ég hef gaman af því, að við erum að mæta í þessa leiki og sýna þvílikt hjarta og þvílíka ástríðu, við neitum að gefast upp. Ég held að það er það sem standi upp úr, svona leikir og svona hjarta, heldur en við að væla yfir einhverju þreytu og þyngsl."
Óskar Örn Hauksson kemur inn á í leiknum og skorar jöfnunarmarkið, auk þess að hann lagði upp fyrra markið. Óskar varð fertugur fyrr á árinu.
„Hann er búinn að vera frábær fyrir okkur í sumar, hann er alltaf til þegar kallið kemur, bara virkilega öflug viðbót. Fertugur? Ég meina 'come on' þetta eru ótrúleg DNA í þessum dreng. Þannig hann er að koma sterkur inn núna, á tímapunkti sem að við þurfum virkilega á honum að halda."
Oliver Ekroth fer meiddur af velli og það leit ekki vel út. Líkur eru á því að hann verði ekki meira með í deildinni.
„Þetta lítur út fyrir að vera slæm tognun, þannig mögulega er Íslandsmótið bara búið fyrir hann, sem er náttúrulega slæmt. Það er auðvitað eitt af þessum afleiðingum mikils álag og hann er búinn að spila mjög mikið af mínútum. Það hefur lítið verið hægt að hvíla hann í sumar, en svona er þetta. Við sjáum þetta út um allt í hinum stóra heim þar sem mikið álag er, þá geta svona meiðsli komið upp."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.