Tveimur fyrstu leikjum dagsins er lokið í spænska boltanum, þar sem Girona mætti Athletic Bilbao áður en topplið Barcelona heimsótti Alavés.
Robert Lewandowski var á sínum stað í byrjunarliði Barca og hefur hann verið óstöðvandi á upphafi nýs tímabils undir stjórn Hansi Flick. Hann gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í fyrri hálfleiknum í dag.
Raphinha lagði fyrstu tvö mörkin upp fyrir Lewandowski og Eric García það þriðja og drápu Börsungar leikinn niður í tíðindalitlum síðari hálfleik. Lokatölur 0-3 og er Barca með þriggja stiga forystu á ríkjandi meistara Real Madrid á toppi deildarinnar sem stendur, með 24 stig eftir 9 umferðir. Alavés er með 10 stig.
Girona tók þá forystuna á heimavelli gegn Athletic eftir að gestirnir frá Bilbao höfðu klúðrað vítaspyrnu. Álex Berenguer brenndi af á vítapunktinum og tók hinn bráðefnilegi Yaser Asprilla forystuna fyrir heimamenn á 39. mínútu.
Oihan Sancet var þó ekki lengi að jafna fyrir Athletic og staðan 1-1 í leikhlé.
Í síðari hálfleik fékk Athletic dæmda aðra vítaspyrnu og í þetta sinn steig Ander Herrera á vítapunktinn, en brenndi einnig af. Staðan var því áfram 1-1 allt þar til gríðarlega seint í uppbótartíma.
Það var á 97. mínútu sem Aitor Paredes gerðist brotlegur innan vítateigs og fékk gult spjald að launum. Hann fékk annað gult spjald í kjölfarið fyrir mótmæli og steig Cristhian Stuani á vítapunktinn. Þetta var í þriðja sinn í leiknum sem vítaspyrna var dæmd og í þetta skiptið tókst spyrnumanninum að skora.
Stuani tryggði þar með 2-1 sigur Girona á 99. mínútu en þetta er aðeins þriðji sigur liðsins á nýrri leiktíð eftir erfiða byrjun eftir mikla blóðtöku í sumar. Girona er með 12 stig eftir 9 umferðir, tveimur stigum á eftir Athletic Bilbao.
Nico Williams var ekki með í liði Athletic vegna meiðsla. Stóri bróðir hans Inaki Williams lék allan leikinn en tókst ekki að koma í veg fyrir tap þar sem hann fékk ekki að stíga á vítapunktinn.
Það eru tveir leikir til viðbótar á dagskrá í dag, þar sem Sevilla, Real Betis, Real Sociedad og Atlético Madrid eiga leiki.
Alaves 0 - 3 Barcelona
0-1 Robert Lewandowski ('7 )
0-2 Robert Lewandowski ('22 )
0-3 Robert Lewandowski ('32 )
Girona 2 - 1 Athletic
0-0 Alejandro Berenguer ('28 , Misnotað víti)
1-0 Yaser Asprilla ('39 )
1-1 Oihan Sancet ('41 )
1-1 Ander Herrera ('58 , Misnotað víti)
2-1 Christian Stuani ('99 , víti)
Rautt spjald: Aitor Paredes, Athletic ('90)
Athugasemdir