Wales heimsækir nágranna sína Englendinga í vináttulandsleik á fimmtudagskvöldið og tekur svo á móti Belgíu í undankeppni HM eftir helgina.
Craig Bellamy landsliðsþjálfari er jákvæður og vongóður fyrir landsleikjagluggann þrátt fyrir erfiða leiki. Hann er mjög ánægður með liðið sitt og segir strákana vera búna að sanna að þeir þurfa ekki Gareth Bale til að geta eitthvað.
„Áður en ég var ráðinn hingað sagði fólk mér að ég væri að taka við sökkvandi skipi. Kóngurinn (Bale) er farinn. Ég var aldrei sammála því, það er mikið af góðum leikmönnum í þessu landsliði," sagði Bellamy um helgina.
„Bíðið bara í nokkur ár, þá á þessi vél eftir að verða enn betri. Við erum með ungt lið."
Wales er í þriðja sæti riðilsins í undankeppni HM, með 10 stig eftir 5 umferðir. Liðið er í toppbaráttu við Norður-Makedóníu og Belgíu.
„Ef við viljum vera topp fótboltaþjóð þá verðum við alltaf að komast á stórmót. Við þurfum á þessum leikjum að halda, strákarnir þurfa að spila við sterkustu landsliðin. Við höfum náð frábærum árangri á köflum en ég vil að við gerum það alltaf, ég vil að þetta landslið skili stöðugum árangri."
Bellamy var partur af landsliði Wales á ferli sínum sem leikmaður og skoraði 19 mörk í 78 leikjum. Hann var í leikbanni þegar landsliðsfélagar hans heimsóttu England í forkeppni fyrir EM árið 2011 og töpuðu naumlega 1-0 eftir spennandi slag.
„Mér finnst ekki gaman að tapa en þessi leikur var sérstakur, ég hef sjaldan verið jafn stoltur á ævinni og þegar ég horfði á strákana spila þennan leik. Það var magnað að horfa á liðið mæta á Wembley og stjórna leiknum. Mig dreymir um að upplifa þetta aftur, nema bara með sigri."
Athugasemdir