Þórarinn Einar Engilbertsson útskrifaðist á dögunum úr námi sem yfirmaður fótboltamála hjá Real Madrid. Þórarinn hefur starfað sem yngriflokkaþjálfari í aldarfjórðung en Fótbolti.net ræddi við hann í tilefni afreksins.
„Mig langaði að læra eitthvað meira, eitthvað fyrir utan þægindasviðið. Það lá við að allur sólarhringurinn fór í þetta, þetta var mjög krefjandi nám. Ég útskrifaðist með tíu í verkefnaskilum og með níu í verkefnunum sjálfum,“ segir Þórarinn.
Námið tók níu mánuði og útskriftin var haldin á einum glæsilegasta velli heims, Santiago Bernabéu, heimavelli Real Madrid.
„Allt efnið var rafrænt, fyrirlestrar á hverjum einasta degi. Það voru um 1700 manns sem útskrifuðust bæði frá netinu og úr háskólanum sjálfum. Síðan þurfti ég að fara einu sinni út og svo aftur í útskriftina sem var á Santiago Bernabéu, þetta var ákveðið ævintýri.“
Veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér
Þórarinn er yngriflokkaþjálfari hjá Stjörnunni en hann hefur starfað við slíkt í aldarfjórðung, hann segir óljóst hvort að hann skipti um starfsvettvang og nýti gráðuna í komandi framtíð.
„Ég er á fínum stað núna, dýrka að vera vinna með krökkum en maður veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Ekki er maður að yngjast í þessu, það er ljóst.“
„Ég hef líka farið reglulega til Möltu í litla akademíu þar. Í ár var sjöunda árið í röð sem ég fer þangað, ég á góðan vin þar sem ég fer til og hjálpa til á námskeiðum þar.“