
Nicky Evrard, landsliðsmarkvörður Belgíu, hefur gert samkomulag við Chelsea um að ganga í raðir félagsins í sumar en félagaskiptin voru tilkynnt í gær.
Íslendingar þekkja vel til Evrard en hún varði vítaspyrnu frá Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur í 1-1 jafnteflinu gegn Íslandi á Evrópumótinu síðasta sumar.
Evrard gerði gott betur en það og varði einnig vítaspyrnu í leik liðsins við Frakka og hjálpaði liðinu að komast í 8-liða úrslit mótsins.
Eftir mótið var mikill áhugi frá WSL-deildinni á Englandi og nú hefur Chelsea staðfest komu hennar.
Evrard gerir þriggja ára samning við Chelsea og gengur hún formlega til liðs við félagið frá belgíska félaginu Leuven í sumar.
Samkeppnin um markvarðarstöðu Chelsea er mikil en fyrir hjá félaginu er þýska landsliðskonan Ann-Katrin Berger og sænska landsliðskonan Zecira Musovic.
Athugasemdir