Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 07. mars 2023 22:16
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Chelsea sannfærandi gegn Dortmund
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Chelsea 2 - 0 Borussia Dortmund (2-1 samanlagt)
1-0 Raheem Sterling ('43)
2-0 Kai Havertz ('53, víti)


Chelsea er komið í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir flottan sigur á heimavelli gegn Borussia Dortmund.

Graham Potter, knattspyrnustjóra Chelsea, hlýtur að vera létt eftir þennan sigur en starf hans hefur verið í mikilli hættu eftir runu slæmra úrslita fyrir og eftir áramót.

Chelsea tapaði fyrri leiknum 1-0 í Dortmund og því beið liðinu erfitt verkefni í kvöld og var byrjunin ekki sú besta. Gestirnir frá Dortmund mættu grimmir til leiks og átti Marco Reus gott skot úr aukaspyrnu sem Kepa Arrizabalaga sá við með flottri markvörslu.

Chelsea tók völdin á vellinum er tók að líða á fyrri hálfleikinn og skoraði Raheem Sterling eftir fyrirgjöf í kjölfarið af langri og þungri sókn. Framherjinn fékk alltof mikinn tíma innan vítateigs og skoraði. Bæði lið komust nálægt því að skora annað mark í fyrri hálfleik en staðan var nokkuð sanngjörn, 1-0, í leikhlé.

Síðari hálfleikurinn byrjaði með látum þegar Chelsea fékk nokkuð umdeilda vítaspyrnu eftir að Marius Wolf fékk fyrirgjöf í höndina á sér af afar stuttu færi. Kai Havertz klúðraði fyrst af vítapunktinum með því að skjóta í stöngina en fékk að taka spyrnuna aftur og skoraði þá. Fyrri spyrnan, sem fór í stöngina og út, var endurtekin vegna þess að leikmenn beggja liða voru komnir inn fyrir vítateigslínuna þegar vítaspyrnan fór af stað.

Leikmenn Dortmund voru brjálaðir út í dómarann en ákvörðunin rétt og var seinni hálfleikurinn afar spennandi í kjölfarið af þessu. Jude Bellingham komst nálægt því að jafna heildarstöðuna fyrir Dortmund en hann skaut framhjá markinu úr dauðafæri og urðu lokatölur 2-0.

Heildarúrslitin eru því 2-1 og er Chelsea annað liðið sem tryggir sér þátttöku í 8-liða úrslitunum eftir Benfica.

Chelsea var afar sannfærandi í þessum sigri og settu leikmenn liðsins boltann í netið fjórum sinnum en tvisvar var ekki dæmt mark vegna naumrar rangstöðu. Það er ljóst að þegar þetta Chelsea lið smellur betur saman gæti það orðið ansi erfitt að stöðva.

Chelsea var betri aðilinn gegn sterku liði Dortmund í kvöld, en Dortmund hafði unnið tíu leiki í röð í öllum keppnum fyrir þetta tap.


Athugasemdir
banner
banner