
„Ég er svekktur fyrir hönd liðsins míns og stelpnanna sem mér fannst leggja mikið í þetta“ sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, eftir 1-0-tap gegn Valskonum á Hlíðarenda fyrr í kvöld.
Lestu um leikinn: Valur 1 - 0 Þór/KA
„Mér fannst sumar virka stressaðar að óþörfu. Þó við séum hér á þessum heimavelli þá áttum við að vera aðeins slakari á boltanum. En einn alvöru, vinstri, fallbyssuhnykkur varð til þess að öll stigin verða hér eftir á Hlíðarenda.“
Eftir góða byrjun á mótinu hjá Þór/KA hefur stigasöfnun gengið erfiðlega í síðustu leikjum en þetta er þriðja tap þeirra í röð, fjórða ef bikarinn er talinn með. Aðspurður hvernig þetta birtist þeim segir hann:
„Við erum í þessari baráttu eins og öll lið. Við erum búin að vinna Stjörnuna og ÍBV á útivelli og Breiðablik heima og mér finnst það ágætt en við höfum misstigið okkur illa heima á móti Keflavík og FH. Þetta er mjög erfiður útivöllur og að tapa með minnsta mögulega mun er svekkjandi sérstaklega að skora ekki. Mér fannst við eiga skilið stig.“
Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.