8-liða úrslit Mjólkurbikars karla fóru fram í vikunni og ljóst að í undanúrslitum í næsta mánuði mun Víkingur taka á móti KR og Breiðablik heimsækja KA. Þetta eru fjögur efstu liðin frá síðasta tímabili.
Fótbolti.net hefur valið tíu bestu leikmennina frá leikjum 8-liða úrslitanna.
Fótbolti.net hefur valið tíu bestu leikmennina frá leikjum 8-liða úrslitanna.
10. Vilhelm Ottó Biering Ottósson (Þór) - Þórsarar töpuðu 1-2 fyrir Víkingi en Vilhelm Ottó var öflugur gegn Birni Snæ Ingasyni og lét vel að sér kveða sóknarlega að auki.
9. Theodór Elmar Bjarnason (KR) - KR vann 2-1 gegn Stjörnunni í framlengdum leik. Elmar sýnir reglulega þau löðrandi gæði sem hann býr yfir, unun að horfa á hann spila fótbolta.
8. Ástbjörn Þórðarson (FH) - Breiðablik vann FH 3-1 þar sem mörkin tvö sem tryggðu sigur Blika komu bæði í uppbótartíma. Ástbjörn var besti leikmaður FH, heldur áfram að vera gríðarlega öflugur í bakverðinum.
7. Marko Vardic (Grindavík) - KA vann 2-1 sigur gegn Grindavík en Slóveninn Vardic átti mjög flottan leik og skoraði gull af marki.
6. Jóhannes Kristinn Bjarnason (KR) - Fagnaði U19 valinu með frábærri frammistöðu, hélt Ísaki Andra niðri og var flottur á báðum endum.
5. Klæmint Olsen (Breiðablik) - Færeyski markaskorarinn kom inn af bekknum þegar FH var yfir en skoraði tvívegis og átti stóran þátt í sigri Blika.
4. Ari Sigurpálsson (Víkingur) - Átti þátt í fyrra marki Víkings gegn Þór og tryggði sínum mönnum svo sigurinn og sæti í undanúrslitum.
3. Birgir Baldvinsson (KA) - Frábær leikur hjá bakverðinum, kom KA á bragðið með góðu marki í blálokin á fyrri hálfleik.
2. Finnur Tómas Pálmason (KR) - Geggjaður í leiknum, steig ekki feilspor og er að finna sig svo sannarlega vel í nýja leikkerfinu. Finnur er frábær varnarmaður sem er að koma aftur upp eftir öldudal.
1. Gísli Eyjólfsson (Breiðablik) - Bestur í 8-liða úrslitum þrátt fyrir að hafa bara spilað seinni hálfleikinn gegn FH. Hans drifkraftur og ógn sóknarlega gjörbreytti leiknum og gerði það að verkum að Blikar náðu að snúa dæminu við. Gjörsamlega niðurlægði varnarmenn FH þegar hann bjó til þriðja mark leiksins.
Athugasemdir