Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fim 07. júlí 2022 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Juve í viðræðum við Koulibaly - Bayern berst við Chelsea um De Ligt
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Það eru enn góðir möguleikar á stórum félagaskiptum hjá Juventus þar sem félagið er í viðræðum við senegalska miðvörðinn Kalidou Koulibaly sem á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Napoli.


Koulibaly hefur lengi verið talinn meðal bestu miðvarða heims en Aurelio De Laurentiis eigandi Napoli aldrei haft áhuga á að selja hann fyrir minna en 100 milljónir evra.

Koulibaly kostar þó talsvert minna í sumar og ef hann verður ekki seldur þá rennur hann út á samningi eftir eitt ár og getur skipt um félag á frjálsri sölu.

Federico Cherubini, yfirmaður fótboltamála hjá Juve, er sjálfur í viðræðum við umboðsmenn Koulibaly. Miðvörðurinn væri góður kostur til að fylla í skarðið fyrir Matthijs de Ligt ef hann verður seldur í sumar.

Koulibaly er 31 árs gamall og hefur spilað 317 leiki á átta árum hjá Napoli. Hann hefur spilað 62 landsleiki með Senegal.

De Ligt er aðeins 22 ára og á 117 leiki að baki á þremur árum hjá Juve auk þess að eiga 38 leiki fyrir Holland.

Chelsea er sagt vera reiðubúið til að borga rúmlega 80 milljónir evra fyrir De Ligt og þá hefur FC Bayern einnig áhuga. Söluákvæðið í samningi De Ligt hljóðar upp á 120 milljónir en Juve er tilbúið til þess að samþykkja lægra tilboð.

Fabrizio Romano greinir frá því að De Ligt muni líklega skipta um félag í sumar.


Athugasemdir
banner
banner
banner