Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   lau 08. janúar 2022 17:34
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Óskar um landsliðshópinn: Sérstaklega glaður fyrir hönd Damirs og Viktors
Damir Muminovic og Höskuldur Gunnlaugsson
Damir Muminovic og Höskuldur Gunnlaugsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Ingvarsson
Davíð Ingvarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjórir leikmenn Breiðabliks eru í landsliðshópnum sem mætir Úganda 12. janúar og Suður-Kóreu 15. janúar. Það eru þeir Damir Muminovic, Viktor Karl Einarsson, Höskuldur Gunnlaugsson og Gísli Eyjólfsson.

Breiðablik vann Keflavík 5-2 í fótbolta.net mótinu í dag en Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Blika talaði um landsliðsmennina í viðtali við fótbolta.net eftir leikinn.

„Ég er auðvitað mjög stoltur af þessum fjórum leikmönnum. Mér finnst þeir allir vera búnir að vinna fyrir því að fá þetta tækifæri, Gísli var í fyrra og Höskuldur í hitt í fyrra en ég er sérstaklega glaður fyrir hönd Damirs og Viktors Karls."

„Þeir voru framúrskarandi góðir síðasta sumar, mér finnst þeir eiga þetta skilið. Við erum stoltir sem lið, Breiðablik er gríðarlega stolt af því að eiga fjóra leikmenn í þessum landsliðshóp."

Óskar telur að Arnar Þór sé að horfa í að Damir komi með reynslu inn í leikmannahópinn.

„Ég get ekki talað fyrir Arnar en Damir hefur spilað mjög vel, hinir hafsentarnir eru ungir, hann er með mikla reynslu. Hann er góður að spila boltanum út úr vörninni, hann er með mikið sjálfstraust í dag, að koma eftir gott tímabil, ég hugsa að hann sé að horfa í það. Hvort hann sjái hann sem endilega fyrir sér sem framtíðar leikmann ég átta mig ekki á því. Held hann sé að horfa á hann sem reynslumikinn mann sem kemur á öldutoppi með mikið sjálfstraust inn í hópinn."

Óskar segir að Davíð Ingvarsson hefði verið vel að því kominn að vera í hópnum en það sé frábært fyrir félagið að vera með fjóra leikmenn.

„Ég hefði viljað sjá Davíð Ingvarsson þarna. Það er erfitt að segja, þú ert með fjóra leikmenn og þá ertu auðvitað mjög stoltur af því en Davíð er einn af þessum leikmönnum sem hefur vaxið gríðarlega mikið og lagt ofboðslega mikla vinnu á sig og ef hann hefði verið þarna þá hefði hann verið vel af þessu kominn en erfitt að biðja um fleiri en fjóra."
Óskar Hrafn: Duglegur strákur og fellur strax vel inn í hópinn
Athugasemdir
banner
banner