„Ég er búinn að vera þarna í þrjú ár og búinn að sýna fyrir sjálfum mér að ég get vel spilað þarna. Ég er búinn að spila þrjú tímabil, næstum því 70 leiki. Ég sagði við sjálfan mig fyrir þetta tímabil að ef við myndum ekki taka skrefið upp þá væri kominn tími á að finna næstu áskorun. Úr því að við náðum ekki okkar markmiði þá fannst mér góður tímapunktur til að leita annað og prófa eitthvað nýtt," sagði Alex Þór Hauksson við Fótbolta.net.
Alex var að klára sitt þriðja ár hjá sænska félaginu Öster og er hann nú samningslaus. Hann hefði verið opinn fyrir því að halda áfram ef liðið hefði farið upp úr B-deildinni í Allsvenskuna.
Alex var að klára sitt þriðja ár hjá sænska félaginu Öster og er hann nú samningslaus. Hann hefði verið opinn fyrir því að halda áfram ef liðið hefði farið upp úr B-deildinni í Allsvenskuna.
„Þá hefðum við verið komnir í svolítið annað dæmi; í Allsvenskuna sem er næsta skref frá Superettunni. Þá ertu kominn með töluvert lið (á móti þér) og stærri leiki. Ég hefði þá klárlega hugsað um það að vera áfram."
„Það var markmiðið að fara upp, við vorum með mjög góðan leikmannahóp í sumar sem átti bara að ná því markmiði ef við horfum kalt á það; vorum með þvílíkt góða leikmenn innanborðs. Það var mikið svekkelsi að ná því ekki. Sérstaklega þar sem ég kem 2021 þegar markmiðið var að fara upp, við vorum leik frá umspilinu á fyrsta tímabilinu, fórum í umspilið í fyrra og núna vorum við aftur leik frá umspilinu. Við höfum verið að klóra í það að fara upp en vantað herslumuninn. Við höfum tapað stigum og verið sjálfum okkur verstir."
Útilokar ekki neitt - Íslensk félög haft samband
Alex ræddi nánar um tímabilið hjá Öster og tímann þar í heild. En hvað tekur við?
„Ég er alltaf þannig að ef ég er í einhverju verkefni þá ætla ég að gera það 100% og það kemst ekkert annað að. Það gerði ég núna, allt þangað til við enduðum tímabilið í lok nóvember. Þá fannst mér kominn tími til að koma heim í smá frí, vera aðeins með fjölskyldunni og finna út hvað ég vil gera. Ég er ekki búinn að skrifa neitt í steinn en maður er að vega og meta möguleikana."
„Það er aldrei að vita, ég útiloka ekki neitt," sagði Alex aðspurður hvort hann sæi fyrir sér að framlengja veruna hér á Íslandi og spila hér á næsta tímabili. „Ég er að reyna finna hjá sjálfum mér hvaða næsta skref er rökréttast. Ég er hægt og rólega að finna út úr þessu, er ekki að drífa mig að neinu. Þetta eru mikilvægar ákvarðanir og gott að taka sér tíma í þær."
„Já (íslensk félög) hafa eitthvað haft samband, sömuleiðis erlendis frá. Ég er aðeins að vega og meta þessa valmöguleika og finna hvað ég vil gera."
Alex var snemma í vetur orðaður við Val. „Eins og ég segi hafa nokkur lið á Íslandi búin að hafa samband. Ég held ég þurfi ekki að ræða einstaka lið. Maður þarf að hugsa þetta vel og vandlega, það eru nokkrir möguleikar í stöðunni og ég er að reyna finna það sem er rökréttast."
Langar að prófa eitthvað nýtt
Eins og staðan er í dag þá er allt opið hjá Alex nema hann ætlar ekki að vera áfram í sænsku B-deildinni.
„Ég er búinn að sýna að ég get vel spilað á því 'leveli'. Mig langar að prófa eitthvað nýtt og halda áfram þessu ævintýri sem fótboltaferillinn er."
„Ég held að maður muni ekki bíða neitt of lengi, en enginn fastur tímapunktur sem ég hef sett mér. Ég ætla anda inn um nefið og út um munninn, það kemur þegar það kemur," sagði Alex.
Athugasemdir