Selfyssingar hafa styrkt sig fyrir komandi átök á tímabilinu en Frosti Brynjólfsson er genginn í raðir félagsins frá Haukum.
Frosti er 24 ára sóknarmaður sem getur leyst allar stöður fremst á vellinum.
Framherjinn skoraði 18 mörk í 28 leikjum í öllum keppnum með Haukum á síðustu leiktíð og hefur nú samið um að spila með Selfossi næstu tvö árin.
Selfoss vann 2. deild síðasta sumar og mun því spila í Lengjudeildinni á komandi leiktíð.
„Þetta er auðvitað bara mjög spennandi fyrir mig að semja við Selfoss. Þetta er ungt en mjög gott lið, margir góðir leikmenn. Aðstæðan og umgjörðin er fyrsta flokks og ég er mjög spenntur fyrir því að vinna með þessu þjálfarateymi, ég hef trú á því að þeir hjálpi mér að bæta mig sem leikmann,“ sagði Frosti við undirskrift.
Frosti er uppalinn í KA og lék sinn fyrsta meistaraflokk með félaginu árið 2018 en hann hefur einnig spilað fyrir Magna og Fylki.
Athugasemdir