Júlíus Magnússon fór samkvæmt heimildum Fótbolta.net í læknisskoðun hjá sænska félaginu Elfsborg í dag en félagið er að kaupa hann af Fredrikstad í Noregi.
Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Júlíusar, vildi ekki staðfesta tíðindin í samtali við Fótbolta.net en þrætti ekki fyrir að vera staddur í Borås.
Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Júlíusar, vildi ekki staðfesta tíðindin í samtali við Fótbolta.net en þrætti ekki fyrir að vera staddur í Borås.
Júlíus er 26 ára varnarsinnaður miðjumaður sem seldur var frá uppeldisfélaginu Víkingi til Fredrikstad snemma árs 2022 og var fljótur að vinna sig inn í liðið. Strax á fyrsta tímabili var hann byrjaður að bera fyrirliðabandið og hjálpaði liðinu að vinna 1. deildina í Noregi.
Fredrikstad átti gott tímabil í efstu deild Noregs á síðasta ári og varð bikarmeistari. Júlíus var fyrirliði liðsins og skoraði sigurmarkið í vítaspyrnukeppninni í úrslitaleik bikarsins.
Júlíus spilaði hverja einustu mínútu í norsku deildinni á liðnu tímabili og skoraði tvö mörk. Samkvæmt Transferkmarkt lagði hann upp þrjú mörk fyrir Fredrikstad sem endaði í 6. sæti.
Miðjumaðurinn hefur verið í síðustu þremur landsliðsverkefnum og á að baki fimm A-landsleiki.
Hjá Elfsborg er Eggert Aron Guðmundsson sem keyptur var frá Stjörnunni fyrir ári síðan. Liðið endaði í 7. sæti sænsku deildarinnar á síðasta tímabili. Það er í riðlakeppni Evrópudeildarinnar, með sjö stig eftir sex fyrstu leikina og situr í 24. sæti - umspilssæti. Framundan eru krefjandi leikir gegn Nice og Tottenham til að komast í umspilið.
Athugasemdir