Þjálfarastarf Ange Postecoglou hjá Tottenham er talið vera í bráðri hættu eftir enn eitt tap liðsins. Í dag töpuðu lærlingar Postecoglou gegn Aston Villa í enska bikarnum.
Postecoglou var svekktur eftir leikinn þar sem Aston Villa tók forystuna eftir 59 sekúndur og urðu lokatölur 2-1.
„Ég er augljóslega svekktur að detta úr bikarnum. Við byrjuðum leikinn hrikalega og áttum í miklum erfiðleikum með að finna einhvern takt. Við fengum svo dauðafæri sem við nýttum ekki og í seinni hálfleik vorum við sterkara liðið, en seinna markið þeirra gerði okkur erfitt fyrir," sagði Postecoglou.
„Við fengum tækifæri til að skora og minnkuðum svo muninn en því miður þá dugði það ekki til.
„Núna fer leikjaálagið loksins minnkandi. Þessi leikmannahópur hefur staðið sig ótrúlega vel, spilandi tvo leiki í hverri viku síðustu tvo og hálfa mánuði. Ég get ekki gert annað en að hrósa þeim. Núna fá þeir loksins tækifæri til að hvíla sig aðeins og stilla sig í réttan gír fyrir restina af tímabilinu."
Tottenham er óvænt í neðri hluta ensku úrvalsdeildarinnar en liðið er komið í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar.
„Við verðum að halda áfram á okkar braut, við erum enn að keppa í Evrópu. Evrópudeildin er mjög mikilvæg fyrir okkur, við erum í góðri stöðu þar og við ættum að fá lykilmenn til baka næstu vikurnar. Í dag vorum við með 11 leikmenn úr aðalliðinu fjarverandi vegna meiðsla og svona hefur það verið síðan í nóvember.
„Strákarnir eru að gera sitt allra besta en þeir þurfa hjálp ef við ætlum að snúa slæmu gengi við."
Athugasemdir