Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   fim 09. mars 2023 17:11
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Svona gæti hópurinn litið út: Búið að taka samtalið?
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Icelandair
Hverja skal velja?
Hverja skal velja?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það kæmi á óvart ef Rúnar Alex verður ekki í byrjunarliðinu í Bosníu.
Það kæmi á óvart ef Rúnar Alex verður ekki í byrjunarliðinu í Bosníu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Verður fróðlegt að sjá í hvaða hlutverki Guðlaugur Victor verður.
Verður fróðlegt að sjá í hvaða hlutverki Guðlaugur Victor verður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sverrir Ingi að fara taka þátt í keppnisleikjum með landsliðinu í fyrsta sinn í tvö ár.
Sverrir Ingi að fara taka þátt í keppnisleikjum með landsliðinu í fyrsta sinn í tvö ár.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hákon Arnar er að spila frábærlega um þessar mundir.
Hákon Arnar er að spila frábærlega um þessar mundir.
Mynd: Getty Images
Jóhann Berg hefur bæði verið að spila á kantinum sem og framarlega á miðjunni.
Jóhann Berg hefur bæði verið að spila á kantinum sem og framarlega á miðjunni.
Mynd: Getty Images
Þórir hefur verið í mjög stóru hlutverki undanfarin ár.
Þórir hefur verið í mjög stóru hlutverki undanfarin ár.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frábært að sjá Alfreð heilan heilsu og að skora mörk.
Frábært að sjá Alfreð heilan heilsu og að skora mörk.
Mynd: Getty Images
Er búið að taka samtalið?
Er búið að taka samtalið?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hefur endurkoma Alfreðs áhrif á stöðu Sveins Arons?
Hefur endurkoma Alfreðs áhrif á stöðu Sveins Arons?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Verður aðalmarkvörður Elfsborg utan hóps?
Verður aðalmarkvörður Elfsborg utan hóps?
Mynd: Guðmundur Svansson
Næsta miðvikudag verður landsliðshópurinn fyrir komandi leiki gegn Bosníu/Hersegóvínu og Liechtenstein opinberaður. Fyrr í þessa viku setti undirritaður saman mögulegt byrjunarlið.

Nú er komið að því að horfa á hópinn í heild, gengið út frá að 23 manna hópur verði niðurstaðan hjá landsliðsþjálfaranum Arnari Þór Viðarssyni. Allt til gamans gert auðvitað.

Markverðir (3):
Elías Rafn Ólafsson (Midtjylland)
Varði mark landsliðsins í síðustu fjórum leikjum í síðustu undankeppni, missti af næstu keppnisleikjum þar á eftir vegna meiðsla og er búinn að missa sæti sitt hjá Midtjylland til Jonas Lössl.

Rúnar Alex Rúnarsson (Alanyaspor)
Verið byrjunarliðsmaður frá því Elías Rafn meiddist fyrir leikina í júní síðasta sumar. Hefur vakið athygli í Tyrklandi og spilað allar mínútur hjá liðinu sem er um miðja deild.

Patrik Sigurður Gunnarsson (Viking)
Á enn eftir að fá sénsinn í keppnisleik en hefur spilað þrjá æfingaleiki. Er aðalamarkvörður Viking í Noregi sem átti mun verra tímabil í fyrra en tímabilið þar á undan.

Varnarmenn (8):
Sverrir Ingi Ingason (PAOK)
Sneri aftur í landsliðið í nóvember eftir eins og hálfs árs fjarveru. Lykilmaður hjá PAOK sem er á leið í bikarúrslitaleikinn í Grikklandi.

Hörður Björgvin Magnússon (Panathinaikos)
Glímt við meiðsli í upphafi árs en lék í byrjun vikunnar 90 mínútur í sigri. Panathinaikos er stigi á eftir AEK í titilbaráttunni. Hörður getur bæði spilað sem miðvörður og bakvörður. Ágætis líkur á grísku miðvarðapari í Bosníu.

Alfons Sampsted (Twente)
Átt hægri bakvarðarstöðuna undanfarin ár en á enn eftir að eiga skínandi landsleik. Tók kafla þar sem hann spilaði einungis ellefu mínútur í fjórum leikjum með Twente en spilaði allar 90 mínúturnar í síðasta leik.

Davíð Kristján Ólafsson (Kalmar)
Stóð sig vel í janúar og byrjaði þrjá síðustu leikina í Þjóðadeildinni. Er lykilmaður hjá Kalmar í Svíþjóð og byrjar pottþétt fyrsta leik í undankeppni ef Hörður Björgvin verður í miðverðinum.

Valgeir Lunddal Friðriksson (Häcken)
Í stóru hlutverki hjá Häcken sem varð sænskur meistari á síðasta tímabili og hefur spilað bikarleikina á þessu undirbúningstímabili. Á enn eftir að koma við sögu í keppnisleik með landsliðinu.

Daníel Leó Grétarsson (Slask Wroclaw)
Verið í öllum landsliðshópum í keppnisverkefnum frá því hann kom inn haustið 2021. Byrjunarliðsmaður í Póllandi.

Aron Einar Gunnarsson (Al Arabi)
Landsliðsfyrirliðinn verður í banni í leiknum í Bosníu. Hann hefur mest spilað miðvörðinn með félagsliði sínu sem er í toppbaráttunni í Katar. Spilaði í miðverði í september í landsliðinu en djúpur á miðju gegn Sádí-Arabíu í nóvember.

Guðlaugur Victor Pálsson (DC United)
Spilað best í bakverðinum með landsliðinu, hefur byrjað tímabilið í Bandaríkjunum í miðverðinum og gæti þurft að leysa stöðu djúps miðjumanns á móti Bosníu.

Miðjumenn (8):
Jóhann Berg Guðmundsson (Burnley)
Spilað frábærlega undir stjórn Vincent Kompany í langbesta liði Championship deildarinnar. Hefur spilað bæði á kantinum sem og framarlega á miðjunni í undanförnum leikjum. Líklegur til að bera fyrirliðabandið í fjarveru Arons Einars gegn Bosníu.

Hákon Arnar Haraldsson (FC Kaupmannahöfn)
Sjóðandi heitur með dönsku meisturunum sem ætla sér að vinna tvöfalt í Danmörku. Í lykilhlutverki þar og kom öflugur inn í landsliðið á síðasta ári. Valinn fótboltamaður ársins af KSÍ í lok síðasta árs og í kjölfarið reyndi RB Salzburg að fá hann í sínar raðir.

Ísak Bergmann Jóhannsson (FC Kaupmannahöfn)
Í mjög takmörkuðu hlutverki hjá FCK, það gengur vel hjá liðinu og Ísak var því miður ónotaður í fyrstu leikjunum eftir vetrarfrí. Hann kom þó inn á í stórsigrinum gegn OB í síðasta leik. Ólíklegt að hann byrji í Bosníu.

Birkir Bjarnason (Adana Demirspor)
Sá landsleikjahæsti var ekki í leikmannahópi Adana í lok síðasta mánaðar og æfði með Viking í Noregi í vikunni. Samningur hans í Tyrklandi rennur út í sumar og verður fróðlegt að sjá hvert næsta skref Birkis verður. Það verður einnig fróðlegt að sjá hvort hann verði í hópnum hjá Adana um helgina. Hann hefur alltaf gefið kost á sér í þjálfaratíð Arnars, hefur borið fyrirliðabandið í mörgum leikjum og spilað sem djúpur miðjumaður. Verður hann tilbúinn að byrja leikinn í Bosníu?

Stefán Teitur Þórðarson (Silkeborg)
Fastamaður í byrjunarliði hjá félagsliði sínu í Danmörku og vakti athygli fyrir frammistöðu sína í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Byrjaði síðustu þrjá leikina í síðustu undankeppni, byrjaði ekki leik í Þjóðadeildinni og var ónotaður varamaður gegn Albaníu.

Mikael Neville Anderson (AGF)
Skoraði markið gegn Albaníu í síðasta keppnisleik og tryggði jafnteflið. Er fastamaður hjá AGF og hefur verið að spila framarlega á vellinum þar.

Þórir Jóhann Helgason (Lecce)
Er langoftast í hóp hjá Lecce í Serie A, kemur alls ekkert alltaf inná en kom þó inná gegn Inter um liðna helgi. Byrjaði alla leikina í Þjóðdadeildina en spurning hvort leikformið sé nægilegt til að byrja gegn Bosníu.

Mikael Egill Ellertsson (Venezia)
Kom frá SPAL í janúar og er í stóru hlutverki hjá Venezia sem berst neðarlega í ítölsku B-deildinni. Hefur verið í undanförnum hópum í landsliðinu og kom inná gegn Albaníu sem var síðasti keppnisleikur.

Sóknarmenn (4):
Alfreð Finnbogason (Lyngby)
Farið vel af stað með Lyngby eftir meiðsli og vetrarfrí, tryggt liðinu einn sigur með marki undir lok leiks og eitt jafntefli. Okkar besti framherji en hefur mikið glímt við meiðsli og því takmarkað sést af honum undanfarin ár með landsliðinu. Hefur byrjað tvo síðustu leiki Lyngby og því líklegt að hann geti byrjað í Bosníu.

Andri Lucas Guðjohnsen (Norrköping)
Byrjaði tvo leiki í sænsku deildinni í fyrra og kom ellefu sinnum inn á, skoraði eitt mark í alls sextán leikjum með liðinu. Hefur skorað þrjú mörk í þrettán landsleikjum. Maður bíður eftir því að sjá hann eiga nokkra leiki eða innkomur í röð þar sem sést að þarna er framtíðar byrjunarliðsmaður í landsliðinu á ferðinni.

Arnór Sigurðsson (Norrköping)
Átti virkilega gott landsliðsár í fyrra og blómstraði með Norrköping seinni hluta tímabilsins. Spilað vel í vetur og skoraði tvö mörk í bikarnum um helgina. Verið sá Arnór sem maður hefur beðið eftir að sjá aftur frá því hann toppaði með CSKA í Meistaradeildinni fyrir tæpum fimm árum.

Jón Dagur Þorsteinsson (OH Leuven)
Fastamaður í Belgíu að undanförnu og fengið reglulega að klára allar 90 mínúturnar sem gerðist sjaldan hjá AGF síðustu ár. Skorað fimm mörk í síðustu átta deildarleikjum. Hefur byrjað síðustu átta keppnisleiki með landsliðinu.


Næstir inn (stafrófsröð):
Albert Guðmundsson (Genoa)
Ekki verið valinn í síðustu tvö verkefni þar sem hægt hefur verið að velja hann. Landsliðsþjálfarinn var ósáttur við hugarfarið og hefur talað um að hann vilji að Albert setji sig í samband við sig og samtalið verði tekið. Ef litið er í gæði Alberts á hann klárlega heima í hópnum, og er kannski búið að taka samtalið? Ekkert hefur heyrst af því og því er hann hér í þessum flokki.

Arnór Ingvi Traustason (Norrköping)
Verið inn og út úr hópum í tíð Arnars. Var valinn í verkefnið í janúar en ekki í verkefnin þar á undan.

Aron Elís Þrándarson (OB)
Er ekki í stóru hlutverki hjá OB og er á leið í burtu í sumar. Verið valinn í síðustu verkefni og var m.a. fyrirliðinn í leiknum gegn Lettlandi þar sem Ísland vann Eystrasaltsbikarinn.

Brynjar Ingi Bjarnason (Ham-Kam)
Búinn að finna sér nýtt lið og verður vonandi í stóru hlutverki þar. Hefur ekki verið valinn í síðustu hópa en er væntanlega einn af næstu hafsentum inn í hópinn.

Dagur Dan Þórhallsson (Orlando)
Stóð sig vel í æfingaleikjunum í janúar og þróunin á hans ferli verið mjög jákvæð. Er að taka þessi margumtöluðu skref sem Arnar hefur talað um og spurning hvort hann sé búinn að taka þau nógu mörg til að fá kallið í þennan hóp. Mjög fjölhæfur leikmaður sem getur leyst fleiri en eina stöðu.

Guðmundur Þórarinsson (OFI Crete)
Sennilega næsti vinstri bakvörður á lista, stóð sig ágætlega í síðustu undankeppni en hefur ekki verið valinn síðan.

Hákon Rafn Valdimarsson (Elfsborg)
Gæti þess vegna fengið kallið núna ef landsliðsþjálfarinn horfir í að Hákon er byrjunarliðsmaður hjá Elfsborg en Elías er varamaður hjá Midtjylland.

Hjörtur Hermannsson
Var í hóp í síðasta keppnisleik með landsliðinu en þar á undan hafði hann ekki verið valinn í tæpt ár. Hann, Brynjar og mögulega Ari Leifsson næstir inn ef það vantar miðvörð.

Höskuldur Gunnlaugsson (Breiðablik)
Var í síðasta hóp í keppnisverkefni, bar fyrirliðabandið í æfingaleik bæði í nóvember og janúar en þrír aðrir hægri bakverðir sem eru líklegri til að fá kallið.

Sveinn Aron Guðjohnsen (Elfsborg)
Verið í öllum hópum undanfarin ár og er kannski óvænt settur hingað. Ekki heillað með landsliðinu, einungis tvö mörk skoruð í tuttugu leikjum. Annað markið kom í janúar þegar hann fylgdi á eftir eigin vítaspyrnu gegn Svíum. Byrjaði 10 af 30 leikjum Elfsborg í Allsvenskan í fyrra.

Sævar Atli Magnússon (Lyngby)
Stóð sig vel í æfingaleikjunum í janúar, er byrjunarliðsmaður hjá Lyngby og getur leyst fleiri en eina stöðu. Er þrátt fyrir það ólíklegur í að fá kallið núna.

Willum Þór Willumsson (GA Eagles)
Spilað virkilega vel í Hollandi og gengi liðsins eins og svart og hvítt þegar hann er með og svo þegar hann er fjarverandi. Hann hefur glímt við meiðsli að undanförnu og misst af síðustu leikjum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner