
Þróttur og Selfoss gerðu fyrr í kvöld markalaust jafntefli í toppbaráttu 1. deildar. Alfreð Elías Jóhannsson þjálfari Selfoss var svekktur að ná ekki að landa sigri þar sem liðið hans var sterkara liðið í leiknum en er ánægður með stígandann í sínu liði í undanförnum leikjum.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 0 - 0 Selfoss
„Við vorum komin í þennan til að vinna og fengum færi fyrstu mínúturnar til að vinna leikinn. Vorum svo mun líklegri í seinni hálfleik til að setja mark en það datt ekki. Það er bara svoleiðis,“ sagði Alfreð en fyrri viðureign liðanna fór 2-1 fyrir Þrótti og Selfossliðið hefur bætt sig síðan þá.
Lið Selfoss féll eins og kunnugt er úr Pepsi-deildinni síðastliðið haust og aðspurður segir Alfreð Selfyssinga hafa lært mikið af því. Búið sé að leggja mikla vinnu í að ná svekkelsinu úr liðinu og beina orkunni í að koma liðinu aftur upp í deild þeirra bestu.
„Það lærðu allir mikið á síðasta sumri á Selfossi. Það fer bara í bankann og við notuðum það aðeins til að hjálpa okkur. Auðvitað vorum við sár og svekkt að falla en við erum á réttri leið og erum búin að leggja ótrúlega mikla vinnu í að ná því úr okkur og eins og sést núna þá langar okkur í Pepsi.“
Eva Lind Elíasdóttir leikmaður Selfoss er farin aftur út til Bandaríkjanna þar sem hún stundar nám og spilar því ekki meira með liðinu. Erna Guðjónsdóttir gat ekki spilað í kvöld vegna meiðsla og er einnig á leið aftur erlendis í nám. Aðspurður segist Alfreð ætla að styrkja liðið sitt í félagaskiptaglugganum. Hann var þó ekki tilbúinn til að tjá sig nánar um styrkinguna.
Það er ljóst að Selfyssingar ætla að gera harða atlögu að því að komast upp en liðið er áfram í 3. sæti, tveimur stigum á eftir Þrótti og einu á eftir HK/Víkingum sem eiga leik til góða.
„Ég fer upp með þær. Hvort það verður núna, á næsta ári eða þarnæsta. Við förum upp,“ sagði Alfreð að lokum en hægt er að horfa á allt viðtalið við hann í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir