„Þetta var mjög skemmtilegt og erfitt á sama tíma. Við erum með frábæran hóp og maður lærir af þessu, verður betri í fótbolta," sagði Akureyringurinn Bjarni Guðjón Brynjólfsson aðspurður að því hvernig hefði verið að taka þátt í lokakeppni Evrópumótsins með U19 landsliðinu.
Lestu um leikinn: Ísland U19 0 - 0 Grikkland U19
Strákarnir luku keppni í kvöld er þeir gerðu markalaust jafntefli gegn Grikklandi í lokaumferð riðilsins. Íslenska liðið endaði með tvö stig úr þremur leikjum.
„Mér fannst þeir ekki skapa sér neitt og við vorum bara klaufar að koma okkur ekki í betri færi," sagði Bjarni um leikinn í kvöld en hann var því næst spurður út í það sem gerðist eftir leik þegar leikmenn sungu með stuðningsfólkinu.
„Það var bara geggjað; þetta er frábært stuðningsfólk, foreldrar og vinir. Þetta var góður stuðningur."
„Þetta er mjög flottur hópur hjá okkur. Ég held að við höfum allir lært helling, bæði fótboltalega séð og upp á reynsluna."
Bjarni Guðjón er Þórsari og fer núna heim að spila með sínum mönnum í Lengjudeildinni. „Það verður fínt að koma heim, að hitta kærustuna og svona. Það er alltaf sól og blíða á Akureyri," sagði miðjumaðurinn að lokum.
Athugasemdir
























