
„Ísland er lið sem við þekkjum mjög vel," sagði Gemma Grainger, landsliðsþjálfari Noregs, á fréttamannafundi í gær. Í kvöld mætast Ísland og Noregur á Evrópumótinu.
„Við höfum spilað tvisvar við þær nýverið í Þjóðadeildinni."
„Við höfum spilað tvisvar við þær nýverið í Þjóðadeildinni."
Báðir leikir Íslands og Noregs í Þjóðadeildinni enduðu með jafntefli en hér á Evrópumótinu hafa hlutirnir fallið með Noregi sem er með fullt hús stiga eftir tvo leiki. Á meðan er íslenska liðið án stiga og úr leik á mótinu.
„Leikirnir í þessum riðli hafa verið mjög jafnir. Þó Ísland hafi ekki fengið úrslitin sem þau vildu í sínum leikjum þá sé ég lið sem er mjög sterkt líkamlega og með skýran leikstíl sem þau eru stolt af. Þau vildu ekki þessi úrslit en mér finnst frammistaðan hjá liðinu hafa verið fín í fyrstu tveimur leikjunum."
Muni ekki hafa of mikil áhrif
Grainger telur að það muni ekki hafa mikil áhrif á leikinn að Noregur sé búið að vinna riðilinn og Ísland úr leik.
„Ég held að það muni í hreinskilni sagt ekki hafa of mikil áhrif á leikinn. Ég veit að íslenska liðið mun vilja skila góðri frammistöðu fyrir sig sjálf og fyrir stuðningsmennina sem hafa ferðast hingað. Stuðningsmenn þeirra eru frábærir. Þær munu spila upp á stoltið og það verður erfið áskorun fyrir okkur."
„Þetta snýst um að enda riðlakeppnina vel og bæta frammistöðuna sem lið. Átta-liða úrslitin bíða en hugarfarið hefur ekki breyst; þetta er einn leikur í einu og þannig horfum við á þetta," sagði Grainger.
Grainger var spurð af fréttamanni Fótbolta.net á fundinum hvort að hún muni gera margar breytingar á liði sínu í ljósi þess að norska liðið er búið að vinna riðilinn.
„Við erum með sterkan hóp. Fyrsta daginn sem við komum saman þá töluðum við um það hvað hver leikmaður er mikilvægur. Það er mikil samkeppni. Við skoðum hvað er best fyrir liðið á morgun. Við munum ekki gefa neitt upp varðandi það. Þetta snýst um hvað er best fyrir næsta leik. Eins og ég segi, þá er mikil samkeppni og við ætlum að nota hópinn vel. Hvort það verði þannig á morgun (í kvöld), þið verðið að bíða og sjá," sagði þjálfari norska liðsins.
Athugasemdir