„Þetta var ágætis ferðalag, allir leikmenn og hluti af teyminu flugu til Sviss, þægileg lengd á stoppi og þaðan yfir til Kósovó. Við erum staðsettir svona 20 mínútna rútuferð frá flugvellinum. Þetta var bara frekar þægilegt, við þjálfarateymið vorum bara að vinna í undirbúningi fyrir leikinn svo þetta leið mjög fljótt," segir Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, við Fótbolta.net.
Víkingur mætir FC Malisheva í kvöld í fyrri leik liðanna í 1. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni. Liðin mætast svo í seinni leiknum á Víkingsvelli eftir viku. Leikurinn í kvöld hefst klukkan 18:15 að íslenskum tíma.
Víkingur mætir FC Malisheva í kvöld í fyrri leik liðanna í 1. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni. Liðin mætast svo í seinni leiknum á Víkingsvelli eftir viku. Leikurinn í kvöld hefst klukkan 18:15 að íslenskum tíma.
Þægilegra hitastig en búist var við
„Við bjuggumst við miklum hita en það rigndi í dag og blés smá, þannig það var bara frekar svalt á æfingunni í kvöld. Það er jákvætt miðað við þær 35 gráður sem maður var búinn að sjá. Vonandi helst þetta bara svipað og var í kvöld, það er hentugra hitastig en 35 gráður. Ég þarf mögulega að kaupa mér einhverja yfirhöfn af því ég tók bara bol með mér," sagði Sölvi léttur þegar hann ræddi við Fótbolta.net eftir æfingu Víkings í gærkvöldi.
Flóknara að fá myndefni
Hvað vita Víkingar um Malisheva?
„Þetta er tiltölulega ungt félag, níu ár síðan það var stofnað, búinn að vera mikill uppgangur - farið fljótt upp um deildir. Þeir spiluðu líka í fyrra í forkeppni Sambandsdeildarinnar, duttu út í fyrstu umferð. Þeir eru nýkomnir á stóra sviðið í Kósovó. Þetta er tíu liða deild, 36 umferðir; 14 sigrar, 11 jafntefli og 11 töp. Það er erfitt að segja nákvæmlega hversu sterkir þeir eru, það er takmarkað myndefni sem við gátum fengið."
„Í gegnum Wyscout er hægt að greina andstæðinga, hægt að sjá síðustu leiki og klippur. Ég held að Wyscout sé ekki með samning við deildina í Kósovó og því dálítið erfitt að fá leiki frá þeim, en okkur tókst með herkjum að ná síðustu leikjunum fyrir sumarfríið þeirra, Myndefnið er misgott, mismunandi hvað myndavélin er langt frá vellinum. Við teljum okkur vera búnir að sjá nóg, reynt að undirbúa okkur eins vel og við getum."
Víkingur hefur spilað mikið af Evrópuleikjum undanfarin ár. Eru einhver sambönd sem hafa hjálpað við að verða sér úti um myndefni?
„Við höfum yfirleitt getað heyrt í liðum í sömu deild, jafnvel þeirra samkeppnisaðilum sem með glöðu geði vilja láta okkur fá allt myndefni í þeirri deild. Það er fyrst núna sem var dálítið erfitt fyrir okkur; að redda myndefni frá leikjum í Kósovó."
Það litla sem þið fenguð, má segja hvernig þið fenguð það?
„Ég veit ekki nákvæmlega hvernig það var gert, Kári Árna kom bara með pakka til teymisins, búinn að græja þetta einhvern veginn. Ég spurði hann ekkert nákvæmlega hvernig hann gerði það."
„Vonandi spila þeir akkúrat þannig"
Spilar Malisheva fótbolta sem svipar til einhvers á Íslandi?
„Það eru fínar pælingar hjá þeim, þeir leikir sem við höfum náð að sjá eru leikir gegn slakari andstæðing. Þar eru þeir með mikla stjórn og yfirhönd. Við sjáum hvernig þeir vilja spila þegar þeir fá tíma á boltann, geta þá farið í alls konar krúsidúllur; ýtt bakvörðum ofarlega. Þeir eru vanir því að spila í 4-3-3, fara með bakverðina upp og svo kemur miðjumaður niður í þriggja manna vörn í uppspili, það er mikið flæði hjá þeim. Það er alltaf auðveldara að gera það þegar þú ert ekki pressaður, getur þá stillt upp í það kerfi sem þú vilt."
„Ég held það sé bara ein klippa sem sýnir okkur hvernig andstæðingurinn pressar þá eftir markspyrnu. Vonandi spila þeir akkúrat þannig út úr henni þegar við mætum þeim," segir Sölvi á léttu nótunum. „Við erum undirbúnir í að þurfa að bregðast við einhverju öðru þegar í leikinn er komið."
Víkingur á að vinna
Hvernig sér Sölvi þetta einvígi fyrir fram, á Víkingur að vinna Malisheva?
„Já, ég myndi alltaf segja það. Við erum með töluvert meiri reynslu í Evrópu. Það er eiginlega ekki hægt að bera styrkleika deildanna saman. Það er erfitt að segja fyrir fram þegar upplýsingarnar fyrir leik eru takmarkaðar. Breiðablik átti hörku einvígi við meistarana, Drita, í fyrra, Blikar ekkert endilega síðari aðilinn. Drita hljóp með deildina í Kósovó, virðast vera langbesta liðið þar. Það er kannski hægt að meta það þannig að þetta lið sé töluvert á eftir því liði. Þetta er Evrópa, við erum á útivelli og þetta eru allt saman erfiðir leikir. Við verðum að vera klárir."
„Þetta er skemmtilegt verkefni, tökum þessu alvarlega, erum með ábyrgð íslensks fótbolta á okkur; safna stigum og halda áfram að gera vel fyrir íslenskan fótbolta. Það er mikil ábyrgð að vera fánaberi íslensks fótbolta í Evrópu. Þetta er skemmtilegt, viljum halda okkur sem lengst í keppninni, skemmtilegar minningar sem skapast í svona ferðum. Þetta getur þétt hópinn og allt liðið tengist betur í svona ævintýrum."
Völlurinn lítur vel út
Spilað verður á þjóðarleikvanginum, Fadil Vokrri Stadium í Pristina, höfuðborg Kósovó.
„Við fórum á völlinn í kvöld, æfðum á honum. Hann lítur hrikalega flott út, rúmlega 13 þúsund manna völlur, hlaupabraut og grasið mjög fínt. Það er ekki yfir neinu að kvarta þegar kemur að vellinum, flott aðstaða."
„Gras er eitthvað sem við erum ekki vanir að spila á, spiluðum í Vestmannaeyjum í vor, en það er reyndar smá munur á því grasi og því sem er hérna úti. Það er öðruvísi fótbolti að spila á grasi samanborið við gervigras, við þurfum að venjast því hratt," segir Sölvi.
Leikurinn verður í beinni útsendingu á SÝN Sport og í beinni textalýsingu hér á Fótbolti.net.
Athugasemdir