mið 10. ágúst 2022 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Báðir þjálfarar ræddu við dómarann - Leikmenn illa verndaðir
Fundur með dómurunum.
Fundur með dómurunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Álfhildur Rósa, fyrirliði Þróttar, meiddist í leiknum.
Álfhildur Rósa, fyrirliði Þróttar, meiddist í leiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þjálfarar beggja liða voru ósáttir við störf dómarateymisins í leik Þróttar og Selfoss í Bestu deild kvenna í gær.

Ásmundur Þór Sveinsson dæmdi leikinn, en báðir þjálfarar voru ekki sáttir með hans störf.

„Ég er ekki ánægður með dómgæsluna aftur. Ég skil ekki hvernig það var bara eitt gult spjald í leiknum. Það var engin lína," sagði Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, eftir leik. Þróttur vann leikinn 3-0 en Nik var ekki sáttur.

„Það er eins og þetta sé alltaf svona í Bestu deild kvenna í ár, það er engin lína hjá dómurunum. Það hafa bara verið þrjú rauð spjöld í sumar og það er fáránlegt."

„Þetta er ekki nægilega gott," sagði Nik en hann missti fyrirliða sinn, Álfhildi Rósu Kjartansdóttur, af velli í leiknum vegna meiðsla. „Ef dómarinn hefði tekið á þessu fyrr þá hefði þetta kannski endað öðruvísi. Við vonum að ekkert sé brotið."

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, var á sömu skoðun á Nik er hann ræddi við Fótbolta.net eftir leik.

„Við vorum þarna bæði þjálfarateymin að tala við dómarann um það að okkur fyndist leikmenn beggja liða illa verndaðir í leiknum og er þetta eitthvað sem er almennt í deildinni. Leikmenn komast upp með of mikið. Það er eins og það eigi að lækka einhvern 'standard' vegna þess að þetta er kvennafótbolti með því að refsa ekki fyrir hluti sem yrðu refsað fyrir í karlafótbolta."

Björn talaði um að leikmenn hjá sér hefðu getað fengið gult spjald, en sluppu. Hann er ekki sáttur með það að leikmenn séu að sleppa við að fá spjald þegar það er verðskuldað, það verði að taka á þessu.

„Það er búið að dæma sex víti í öllu mótinu, þrjú rauð spjöld komin í tólf umferðum og undir tvö spjöld að meðaltali í leik. Þetta er ekkert sérstaklega beint að Ása heldur almennt," sagði Björn en viðtöl við báða þjálfara má sjá hér fyrir neðan.
Nik Chamberlain: Staðan sýnir ekki rétta mynd af leiknum
Björn Sigurbjörns: Okkur virðist vera fyrirmunað að skora mörk
Athugasemdir
banner
banner
banner