lau 10. október 2020 19:17
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stór hluti leikmanna í Pepsi Max vill slaufa mótinu
Arnar Sveinn Geirsson.
Arnar Sveinn Geirsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Sveinn Geirsson, leikmaður Fylkis og forseti Leikmannasamtaka Íslands, var á línunni í útvarpsþættinum Fótbolta.net í dag.

Rætt var um stöðuna í íslenska boltanum. Æfingum og keppni á höfuðborgarsvæðinu hefur verið frestað til 19. október en miðað við fjölda smita gæti það orðið lengur.

Stefnan er að klára Íslandsmótið í fótbolta en mikil óvissa er í samfélaginu og Guðni Bergsson, formaður KSÍ, viðurkennir að málin séu ekki alfarið í höndum sambandsins heldur velti á faraldrinum. Með því að smella hérna má lesa viðtal við Guðna.

Fyrr á árinu var sett saman reglugerð hjá KSÍ sem fjallaði um það ef ekki væri hægt að klára mótið vegna Covid-ástandsins myndu úrslit ráðast á meðalfjölda stiga.

Leikmannasamtökin framkvæmdu könnun meðal leikmanna í Pepsi Max-deildum karla- og kvenna. Úr þessari könnun fengust rúmlega 370 svör.

„Það er helmingur leikmanna kvenna meginn sem vill að mótinu verði slaufað. Það er aðeins minna hlutfall karla meginn, en samt sem áður frekar hátt hlutfall, tæplega 40 prósent. Þetta eru þannig tölur að það er ekki hægt að líta fram hjá því og segja: 'Þið spilið sama hvað'," sagði Arnar Sveinn.

„Aðstæður leikmanna eru mjög mismunandi. Það má ekki gleyma því að þetta snýst ekki bara um leikmanninn sjálfan, líka aðstæður heima fyrir. Er hann með einhvern nákominn sér sem er veikur fyrir? Þið getið rétt ímyndið ykkur það ef það er haldið áfram og þessi leikmaður þarf að koma því á sig að segjast ekki ætla að spila, og verður þar af leiðandi dæmdur af annað hvort samherjum sínum eða jafnvel fótboltasamfélaginu á Íslandi."

„Það er verið að setja leikmenn í óþægilega stöðu. Ef þið spyrjið mig hvað ég vil gera, þá vil ég klára þessa deild en það er bara vegna þess að ég persónulega er ekki snertur af þessari veiru þannig; hún hefur ekki áhrif á líf mitt..."

„Að mínu mati hefur öryggi leikmanna ekki verið tryggt. Í kvikmyndabransanum er hjúkunarfræðingur á svæðinu á hverjum einasta morgni, það eru allir hitamældir og þú ferð í skimun x oft. Þessir hópur er líka í búbblu. Það þyrfti að gera það svoleiðis (í fótboltanum) en þá ertu að biðja leikmenn um ansi mikið, þetta er áhugamál hjá flestum."

Arnar segist ætla að ræða við Guðna Bergsson, formann KSÍ, á næstu dögum.

Hægt er að hlusta á útvarpsþáttinn í heild sinni hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Gamla bandið, Arnar Grétars og leikmannakönnun
Athugasemdir
banner
banner
banner