Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 10. nóvember 2020 15:35
Magnús Már Einarsson
Rúnar Már: Það er loksins komið að þessu
Icelandair
Rúnar Már Sigurjónsson.
Rúnar Már Sigurjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það eru allir klárir og það er mikil tilhlökkun. Loksins er komið að þessu og þá er eins gott að við mætum og gerum þetta eins og menn. Þetta er úrslitaleikur og við erum klárir," sagði landsliðsmaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson í viðtali við Fótbolta.net í dag.

Rúnar er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Ungverjum í umspili um sæti á EM í Búdapest á fimmtudaginn. Rúnar er bjartsýnn fyrir leikinn.

„Þegar við spilum okkar leik þá tel ég möguleika okkar alltaf góða. Við erum búnir að fara mikið yfir þeirra leik. Þeir hafa náð góðum úrslitum undanfarið og eru með hörkulið. Þetta verður sennilega leikur sem ræðst á smáatriðum og ég er nokkuð viss um að taka detti okkar meginn."

Rúnar er sjálfur orðinn heill heilsu eftir að hafa verið að glíma við smávægileg meiðsli á dögunum. „Ég var aðeins meiddur eftir síðasta landsleikjahlé en er kominn á gott ról. Ég er í góðu standi og er eins og alltaf klár ef að þeir þurfa á manni að halda."

Mikið hungur í hópnum
Hinn þrítugi Rúnar var í hópnum sem fór á EM í Frakklandi og hann vill fara aftur þangað.

„Það var ótrúleg upplifun að fara á EM. Það væri yndislegt að geta farið aftur á stórmót með strákunum. Það er það eina sem við erum búnir að stefna að. Það er markmiðið, við höfum alltaf sagt það. Við erum komnir í úrslitaleikinn og það væri geggjað ef við förum á mótið."

„Þessi hópur hefur verið saman í mörg ár og það þekkja allir alla, styrkleika, veikleika og allt. Það hefur oftast verið þannig að þegar er mest undir þá stígur liðið upp og nær í góð úrslit. Ég sé ekki ástæðu fyrir því að það ætti að breytast á fimmtudaginn."

„Það er gríðarlegt hungur í hópnum. Það er talað um að menn séu að eldast en það er nóg inni hjá þessum hóp. Menn eru að horfa á þetta mót og síðan er stutt í HM líka. Það hefur gefið þjóðinni og leikmönnum mikið að fara á síðustu tvö stórmót og það eru allir mjög hungraðir í að fara á EM,"
sagði Rúnar Már að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner