Enzo Maresca, stjóri Chelsea, var ánægður með hugrekkið sem liðið sýndi í 1-1 jafnteflinu gegn Arsenal á Stamford Bridge í kvöld.
Chelsea tókst að bjarga stigi gegn Arsenal með frábæru marki Pedro Neto á 70. mínútu.
Leikurinn var stál í stál framan af og var Maresca stoltur af frammistöðunni.
„Ég naut þess algerlega. Frammistaðan var góð og við þekkjum þá nokkuð vel og fannst við berjast vel líka. Frammistaðan var líka mjög mikilvæg fyrir okkur á þessu augnabliki, sem er bara gott mál. Núna getum við hvílt og síðan höldum við áfram.“
Maresca hrósaði þá þeim Pedro Neto og Moises Caicedo eftir leikinn.
„Frammistaðan frá Pedro var mjög góð og eiginlega bara hjá öllum. Við spiluðum eins og við vildum spila, með hugrekki og reyndum að spila frá aftasta manni.“
„Hann (Caicedo) hefur verið alger fagmaður síðan ég kom hingað og er að spila frábærlega.“
Á lokasekúndunum fékk Leandro Trossard dauðafæri til að gera sigurmarkið eftir sendingu William Saliba en hann hitti boltann illa. Maresca hafði ekki áhyggjur af því þar sem rangstöðuflaggið var komið á loft.
„Línuvörðurinn var búinn að flagga rangstöðu. Varnarlega vorum við mjög góðir eða fyrir utan markið sem við fengum á okkur, en restin af leiknum var góð.“
„Svona viljum við gera hlutina. Við reynum að spila og mæta öllum liðum. Við erum Chelsea þannig það er mikilvægt að senda þessi skilaboð. Það eru stjórar sem hafa verið hjá félögum í fimm til níu ár þannig við erum aðeins á eftir hvað það varðar,“ sagði Maresca.
Athugasemdir