Ivan Perisic gæti verið á förum frá Inter eftir ummæli hans í kjölfar bikarúrslitaleiks sem var að ljúka.
Perisic, sem hefur verið meðal bestu leikmanna Inter allt tímabilið, skein í úrslitaleiknum og skoraði tvennu í framlengingu til að tryggja Inter ítalska bikarinn í fyrsta sinn í ellefu ár.
Mikið hefur verið rætt um framtíð Perisic og voru stuðningsmenn Inter vongóðir um að hann myndi skrifa undir nýjan samning við félagið, þar sem núverandi samningur rennur út í sumar.
Það virðist þó ekki vera raunin eftir ummæli Perisic að leikslokum þar sem hann gagnrýndi félagið fyrir að vera svifaseint í viðræðum.
Króatinn var kátur í viðtali að leikslokum en kólnaði fljótt þegar hann var spurður út í framtíðina. Þar gagnrýndi hann Inter fyrir að hefja ekki samningsviðræður við sig fyrr og gæti því verið á förum.
„...það er líka rétt að félagið ætti að hefja viðræður fyrr við lykilmenn," sagði Perisic í beinni útsendingu.