Bayern hefur gert tilboð í Díaz - Liverpool vill Ekitike
   fös 11. júlí 2025 14:37
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ísak fékk fá svör frá Rosenborg: Þjálfarinn vildi aðra leikmenn
Einn af lykilmönnunum í Íslandsmeistaratitil Breiðabliks í fyrra.
Einn af lykilmönnunum í Íslandsmeistaratitil Breiðabliks í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mættur á láni til Lyngby.
Mættur á láni til Lyngby.
Mynd: Lyngby
Númer tíu.
Númer tíu.
Mynd: Lyngby
Spilar sinn fyrsta leik á morgun.
Spilar sinn fyrsta leik á morgun.
Mynd: Lyngby
„Það er mjög gott að vera kominn til Lyngby, kominn hingað til að spila og breyta um aðstæður. Ég er mjög ánægður, mjög spenntur fyrir tímabilinu og spenntur fyrir því að ganga vel með Lyngby. Þetta er lið sem á heima í efstu deild," segir Ísak Snær Þorvaldsson, við Fótbolta.net í dag.

Hann er kominn til danska félagsins Lyngby á láni frá Rosenborg. Ísak æfði með liðinu í dag og mun þreyta frumraun sína með liðinu í æfingaleik á morgun. Lyngby féll úr úrvalsdeildinni fyrr í sumar og verður í 1. deildinni á komandi tímabili sem hefst um næstu helgi.

„Ég var ekki að fá mikinn spiltíma hjá Rosenborg, vissi að Lyngby væri búið að spyrjast um mig í smá tíma og sýndu mjög mikinn áhuga. Það var kominn tími á að prófa eitthvað nýtt."

„Mig langar að spila eins mikið og ég get og hjálpa liðinu að komast aftur í Superliga, markmiðið er að skora nokkur mörk á meðan maður er að því."

Hvernig er standið á þér í dag?

„Það er bara mjög gott, hef verið í mjög góðu formi, búinn að æfa mikið og er í mjög góðu standi núna."

Það má segja að Ísak sé að taka eitt skref aftur á bak til að geta svo vonandi tekið tvö skref áfram seinna meir. Rosenborg er mun stærra félag en leikmenn verða seint betri ef þeir fá ekki að spila.

Tækifærin af mjög skornum skammti
Ísak kom á láni til Breiðabliks tímabilið 2024 og hjálpaði liðinu að verða Íslandsmeistari. Hann fór aftur út með það sem markmið að festa sig í sessi í liði Rosenborgar, en það gekk ekki upp. Ísak byrjaði tímabilið meiddur, hann skoraði svo í bikarsigri í sínum fyrsta leik á tímabilinu, skoraði aftur í næsta bikarleik, en fékk aldrei traustið í byrjunarliðið í deildinni og kom ekki við sögu í 8-liða úrslitum bikarsins þrátt fyrir að hafa skorað í tveimur bikarleikjum þar á undan. Ísak kom fimm sinnum inn á í deildinni í þeim átta deildarleikjum sem hann var til taks í.

Rosenborg hefur einungis skorað 15 mörk í 14 leikjum og er án sigurs í síðustu fjórum deildarleikjum. Það er augljóst að Alfred Johansson, þjálfari Rosenborg, var með aðra menn ofar á sínum lista.

Fékkstu einhverja útskýringu frá Rosenborg af hverju þú værir ekki að spila meira?

„Nei, ekki frá þjálfaranum allavega. Það var mjög lítið rætt við mig, þjálfarinn vildi aðra leikmenn og það er bara eins og það er."

Lyngby hefur fylgst með Ísaki í langan tíma, fylgst með stöðu hans. Þjálfari Lyngby, Morten Karlsen, er mjög spenntur fyrir honum og ljóst að Ísak er kominn til þjálfara sem vill hafa hann í sínum plönum.

Áður en Ísak stökk á tilboð ræddi hann við Sævar Atla Magnússon, fyrrum leikmann félagsins, um umhverfið; svæði félagsins og borgina.

Ekki í myndinni að fara til Íslands
Var í myndinni hjá þér að koma til Íslands á þessum tímapunkti?

„Það var aldrei í myndinni hjá mér, það er búið að heyra í mér og svoleiðis, en það var ekki í mínum plönum," segir Ísak sem verður í treyju númer tíu hjá Lyngby.

Lyngby er með kaupmöguleika í lánssamningnum og ef Ísak spilar vel með liðinu má teljast líklegt að Lyngby nýti sér það ákvæði.


Athugasemdir
banner