Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 11. ágúst 2020 21:21
Magnús Már Einarsson
Andri Rúnar: Veit hvað ég þarf að gera til að komast í sama form
Andri Rúnar Bjarnason.
Andri Rúnar Bjarnason.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
„Ég fékk að vita að þeir höfðu áhuga þegar ég var á Íslandi í sumarfríi og þetta gerðist allt frekar hratt eftir það," sagði framherjinn Andri Rúnar Bjarnason við Fótbolta.net í dag en hann gekk í gær til liðs við Esbjerg í Danmörku.

Ólafur Kristjánsson tók við stjórnartaumunum hjá Esbjerg á dögunum og hann var fljótur að fá Andra í sínar raðir.

„Ég hitti Óla og hann sagði mér sín plön fyrir félagið og hvernig hann hafði hugsað sér að nota mig ef ég kæmi. Eftir það varð ég ákveðinn að ég vildi fara til Esbjerg."

Andri kemur til Esbjerg frá Kaiserslautern í þýsku C-deildinni þar sem hann spilaði lítið á nýliðnu tímabili.

„Tíminn hjá þeim var fyrst og fremst lærdómsríkur. Töluvert öðruvísi áherslur en ég var vanur og ég náði aldrei almennilega að aðlagast því álagi sem fylgdi öllum æfingunum. Ég var mikið meiddur fyrri hluta tímabilsins og þann seinni fékk ég lítinn séns til að sína eitthvað. Ég veit hins vegar hvað ég þarf að gera núna til að komast í sama form og ég var í áður, og ég er mjög spenntur að sýna fólki hvað ég get gert."

Esbjerg féll úr dönsku úrvalsdeildinni í ár en stefnir á að fara beint aftur upp. Keppni hefst í B-deildinni í næsta mánuði.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að spila í Danmörku, fótboltinn er góður og Esbjerg er stór klúbbur sem ætlar sér beint upp aftur í efstu deild," sagði Andri en hver eru markmið hans hjá félaginu? „Ég er ekki búinn að setja upp persónuleg markmið fyrir tímabilið strax, ég er hins vegar búinn að setja mér markmið fyrir undirbúningstímabilið og það er að komast aftur á þann stað líkamlega sem mér líður best inni á vellinum, þegar það kemur þá veit ég hver útkoman verður í vetur."
Athugasemdir
banner
banner
banner