„Bara himinlifandi. Ég held að Valur hafi tapað líka, þannig að þetta eru bara geggjuð úrslit,'' sagði Hallgrímur Mar Steingrímsson, hetja KA manna, eftir 2-1 sigur á Breiðabliki í Bestu-deild karla í dag. „Þetta er topp 6 lið, sem við getum víst ekki unnið! Þannig að bara frábær dagur - frábær spilamennska hjá liðinu.''
Lestu um leikinn: KA 2 - 1 Breiðablik
Eins og fram hefur komið þá fór Nökkvi Þeyr Þórisson, markahæsti leikmaður KA, til Beerschot VA í Belgíu fyrir nokkrum dögum. Hallgrímur sagði að upplegg KA hefði ekkert breyst við brottför Nökkva.
„Það er bara sama upplegg. Ég fór bara í stöðuna hans Nökkva. Við vorum með þrjá á miðjunni núna, frábrugðið því sem að hefur verið í sumar en við þjöppum okkur bara saman og lifum alveg af án Nökkva þó að hann hafi verið frábær.''
Það hefur reynst afar dýrmætt fyrir KA að fá Hallgrím betur og betur í gang eftir því sem að liðið hefur á mótið. Hann var sjálfur óánægður með sig í upphafi þess.
„Ég var náttúrulega alveg hræðilegur, ég viðurkenni það! Ég held að ég hafi byrjað að æfa þremur vikum fyrir mót þannig að ég var ekki í neinu standi. Jújú, ég er búinn að vera að skora undanfarið eitthvað og með hverjum leiknum þá finnst mér ég vera aðeins frískari. Þannig að vonandi verð ég bara mikilvægur í úrslitakeppninni.''
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.