Fyrrum fótboltamaðurinn Antonio Cassano elskar fátt meira en athygli og skiptir það hann engu máli hvort hún sé jákvæð eða neikvæð, en hann segir skoðun hans hafa farið í taugarnar á portúgölsku stórstjörnunni Cristiano Ronaldo.
Cassano var umdeildur leikmaður og heldur áfram að vera það sem sparkspekingur.
Hann hefur gagnrýnt Jose Mourinho, Carlo Ancelotti og Rafael Leao svo einhver nöfn séu nefnd, en oftast er enginn fótur fyrir því sem hann segir.
Nú sakar hann Cristiano Ronaldo um að hafa sent sér bitur skilaboð eftir að hann sleppti því að velja portúgalska leikmanninn á topp tíu lista sinn yfir bestu leikmenn allra tíma.
„Ég sagði að Ronaldo væri númer einn, sá brasilíski. Cristiano Ronaldo kemst ekki á topp fimm hjá mér og ekki einu sinni topp tíu, því fyrir mér eru gæði leikmanna allt annar hlutur. Eftir það klára ég vinnu og fæ skilaboð frá +34 númeri, sem er Spánn. Það er listi af titlum, mörkum og tölfræði.“
„Síðan sendir hann mér hljóðupptöku og sagði: „Þú sýndir mér vanvirðingu, ekki gera svona lagað aftur. Þú skoraðir aðeins 150 mörk og vannst aðeins fjóra titla“. Geggjað.“
„Þannig ég savaraði honum og sagði: „Kæri Cristiano, hlustaðu á mig. Þú heldur að ég hafi vanvirt þig, en ég kann bara ekki vel við þig sem leikmann. Hvert er vandamálið?
„Ímyndaðu þér að hann lagði það á sig að senda mér skilaboð,“ sagði Cassano í hlaðvarpsþættinum BSMT.
Athugasemdir