Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fim 12. janúar 2023 22:42
Elvar Geir Magnússon
Leikur sem við vorum með í höndunum - „Eins grátlegt og það verður“
Höskuldur á æfingu í Portúgal.
Höskuldur á æfingu í Portúgal.
Mynd: KSÍ
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska karlalandsliðið tapaði 2-1 fyrir Svíþjóð í vináttulandsleik í Portúgal í kvöld. Ísland var sterkari aðilinn stærsta hluta leiksins og var yfir þegar tíu mínútur voru eftir, en Svíar skoruðu tvívegis á lokamínútunum.

„Það er ótrúlega grátlegt að fá sigurmarkið á sig með síðustu spyrnu leiksins; eftir að hafa spilað mjög flottan leik, skapað sér helling, haldið vel í boltann og gert allt sem lagt var upp með. Þetta er eins grátlegt og það verður í rauninni," sagði Höskuldur Gunnlaugsson, sem bar fyrirliðaband Íslands, í viðtali við miðla KSÍ eftir leik.

Höskuldur segir réttilega að íslenska liðið þurfi að fara betur með tækifærin sem það fái til að skora.

„Við fáum stór og hættuleg færi og mikið af góðum stöðum. Við erum líka að fá mikið af föstum leikatriðum. Við nýtum þetta ekki alveg nægilega vel, og þeir skora síðan úr sínum tveimur föstu leikatriðum í lokin."

Lestu um leikinn: Svíþjóð 2 -  1 Ísland

Við áttum að vera búnir að klára leikinn
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari segist vera rosalega stoltur af liðinu yfir þessa átta daga sem liðið var í Portúgal.

„Þeir hafa verið hreint út sagt geggjaðir. Við erum hundfúlir að hafa tapað þessum leik í dag. Þetta var leikur sem við vorum með í höndunum. Við áttum að vera búnir að klára leikinn, við fengum bestu færin og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Við sköpuðum okkur dauðafæri til að komast tvö eða þrjú - núll yfir," sagði Arnar eftir leikinn í kvöld.

„Þegar þú ert 1-0 yfir og tíu mínútur eftir þá máttu ekki gera þau mistök sem við gerðum. Við spiluðum inn í 'pressu triggerinn' hjá Svíunum, þeir fá aukaspyrnu og skora. Á síðustu sekúndunum töpuðum við boltanum, þeir fá horn og skora. Þetta er típískt Svíþjóð, þeir hafa spilað svona í 40 ár. Þeir bíða eftir þessum tækifærum og því miður gáfum við þeim þessi tækifæri."


Athugasemdir
banner
banner