Cecilía Rán Rúnarsdóttir var á sínum stað í markinu hjá Inter þegar liðið vann Roma í toppslag í ítölsku deildinni í kvöld.
Inter komst yfir eftir ellefu mínútur en Roma tókst að jafna metin tveimur mínútum síðar. Inter var manni fleiri frá 24 mínutur þegar Valentina Giacinti sóknarmaður Roma fékk að líta rauða spjaldið.
Inter nýtti liðsmuninn en skoraði þó aðeins eitt mark í seinni hálfleik og vann 2-1. Þrátt fyrir að vera manni fleiri var meira að gera hjá Cecilíu í seinni hálfleik.
Þetta var sjötti leikurinn í röð sem Inter tapar ekki, fimm sigrar og eitt jafntefli, liðið er í 2. sæti með 31 stig eftir 14 umferðir. Liðið er þremur stigum á undan Roma sem er í 3. sæti og sjö stigum á eftir toppliði Juventus.
Hildur Antonsdóttir lék allan leikinn þegar Madrid CF gerði 1-1 jafntefli gegn Real Betis í spænsku deildinni. Madrid er í 9. sæti með 17 stig eftir 14 umferðir.