Argentínski miðjumaðurinn Thiago Dylan Ceijas er gengin í raðir Grindavíkur og gerir samning út tímabilið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu í dag.
Thiago, sem er 21 árs gamall, er uppalinn hjá Boca Juniors en hann hefur einnig spilað fyrir unglingalið Levante og Genoa.
Hann spilaði síðast með Carpi í C-deildinni á Ítalíu. Thiago spilaði 18 deildarleiki á síðasta tímabili en varð samningslaus eftir tímabilið.
Thiago var á reynslu hjá Grindavík í æfingaferð liðsins á Spáni á dögunum og gerði í kjölfarið samning út tímabilið en hann verður væntanlega kominn með leikheimild fyrir leikinn gegn KV í 2. umferð Mjólkurbikarsins.
„Ég er mjög ánægður að fá Thiago Dylan til liðs við okkur. Þetta er ungur miðjumaður sem er nokkuð ólíkur þeim miðjumönnum sem við höfum nú þegar hjá félaginu. Hann er snöggur og með mjög góðan grunn. Við vonum að hann verði fljótur að aðlagast íslenskum aðstæðum og geti hjálpað liðinu í sumar," sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Grindavíkur.
Athugasemdir


