Sænsku meistararnir í Rosengard halda áfram að vinna leiki en liðið lagði Norrköping af velli í dag.
Guðrún Arnardóttir var á sínum stað þegar liðið vann 1-0. Sigdís Eva Bárðardóttir var ónotaður varamaður hjá Norrköping. Örebro vann dramatískan sigur á Trelleborg 3-2 þar sem sigurmarkið kom á lokamínútunum. Katla María Þórðardóttir og Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir spiluðu allan leikinn fyrir Örebro.
Maria Catharina Ólafsdóttir Gros lék allan leikinn þegar Linköping steinlá 8-1 gegn Hacken. Rosengard er með fullt hús stiga eftir 23 umferðir. Norrköping er í 5. sæti með 35 stig, Örebro er í 12. sæti með 19 stig og Linköping err í 9. sæti með 26 stig.
Selma Sól Magnúsdóttir var í byrjunarliði Rosenborg og Ásdís Karen Halldórsdóttir var í byrjunarliði Lilleström þegar liðin mættust í norsku deildinni. Lilleström komst yfir en Rosenborg jafnaði metin á lokamínútu venjulegs leiktíma, í uppbótatíma tókst Lilleström að skora sigurmarkið. 2-1 lokatölur. Lilleström fór upp fyrir Rosenborg í 3. sæti með 41 stig eftir 23 umferðir en Rosenborg er í 4. sæti með 40 stig.
Alexandra Jóhannsdóttir spilaðii 72 mínútur þegar Fiorentina vann 3-1 gegn Sassuolo í ítölsku deildinni. Fiorentina er í 2. sæti deildarinnar með 15 stig eftir sex umferðir, Juventus er á toppnum með jafnmörg stig en á leik til góða.