
Birki Bjarnasyni líkar lífið vel í Katar en þar er hann að spila með Heimi Hallgrímssyni og lærisveinum í Al-Arabi. Hann segir að lífið utan vallar sé afskaplega rólegt.
„Það er bara mjög gott að vera kominn í lið aftur og vera aftur farinn að spila reglulega. Það er mjög heitt þarna og aðeins öðruvísi bolti. Þetta er öðruvísi reynsla og það er gaman að því," segir Birkir í viðtali við Fótbolta.net.
„Það er of heitt til að vera úti á daginn. Maður er bara að slaka á og lesa."
Birkir er ánægður með gæðin sem eru í deildinni í Katar.
„Fótboltinn þarna kom mér á óvart. Hann er betri en ég bjóst við. Það er smá spes að það séu takmörk á útlendingum en það er gaman að prófa eitthvað nýtt."
Birkir gerði þriggja mánaða samning við Al-Arabi en vill ekki útiloka að vera þar lengur. Það sé þó ýmislegt í gangi.
„Það er ekki útilokað að ég verði lengur. Þetta eru þrír mánuðir til að byrja með. Mér líður mun vel þarna og er alveg tilbúinn að vera áfram," segir Birkir.
„Það er verið að vinna í þessu og margt hefur gerst eftir síðustu landsleiki. Ég er bjartsýnn á að það verði eitthvað gott í janúar."
Ísland mætir Tyrklandi á fimmtudag. Það vantar öfluga leikmenn í íslenska liðið vegna meiðsla, til dæmis Aron Einar, Rúnar Má og Jóhann Berg. Birkir tekur undir að Erik Hamren og Freyr Alexandersson hafi verið óheppnir með meiðsli síðan þeir tóku við liðinu.
„Maður hefur vorkennt þeim, þeir hafa verið mjög óheppnir með meiðsli síðan þeir tóku við. En við erum með marga góða leikmenn sem geta leyst stöður og þeir verða bara að gera það," segir Birkir Bjarnason.
Athugasemdir