Spænski miðjumaðurinn Rodrigo var kjörinn sem besti fótboltamaður heims og fékk Ballon d'Or, eða Gullboltann, afhentan á dögunum.
Rodri átti magnað tímabil á síðustu leiktíð þar sem hann var gríðarlega mikilvægur hlekkur í ógnarsterku liði Manchester City sem vann ensku úrvalsdeildina.
Eftir að hafa unnið deildina fór hann á EM með spænska landsliðinu og sinnti lykilhlutverki er Spánverjar sigruðu mótið.
Vinicius Junior og Jude Bellingham, leikmenn Real Madrid, enduðu í öðru og þriðja sæti í kjörinu. Dani Carvajal, samherji þeirra hjá Real og samherji Rodri hjá spænska landsliðinu, náði fjórða sætinu og varð Norðmaðurinn Erling Braut Haaland aðeins í fimmta sæti þrátt fyrir gífurlega mikla markaskorun.
Madrídingar höfðu fengið veður af því fyrir verðlaunaafhendinguna að þeir myndu ekki bera sigur úr býtum þrátt fyrir að hafa sigrað Meistaradeild Evrópu og því mættu þeir ekki á svæðið.
„Það var enginn sem lét mig vita fyrirfram að ég myndi fá verðlaunin. Mig fór að gruna það þegar ég sá að enginn frá Real Madrid var á svæðinu," sagði Rodri við El Partidazo de COPE.
„Fyrsta sem ég gerði eftir að ég vann Gullboltann var að senda skilaboð til Álvaro Morata. Hann hefur alltaf sagt mér að ég sé heimskur, að ég geti ekki unnið þessi verðlaun án þess að vera á samfélagsmiðlum. Fyrsta sem ég gerði var að senda á hann: 'Sjáðu, ég er með Ballon d'Or í höndunum án þess að vera á samfélagsmiðlum!'"
Rodri svaraði því á dögunum að hann teldi að Dani Carvajal hefði átt skilið að vera í öðru sæti í kjörinu á leikmanni ársins og Vinicius Junior í þriðja sæti. En hvað með Haaland?
„Haaland er mjög ungur og á eftir að gera magnaða hluti í framtíðinni. Hann er eini leikmaðurinn í heimi í dag sem kemst nálægt tölfræðinni sem Lionel Messi og Cristiano Ronaldo voru með."
Haaland og Vinicius eru báðir 24 ára gamlir en Jude Bellingham er aðeins 21 árs.
Athugasemdir