Víkingur tekur á móti Djurgarden á Kópavogsvelli í Sambandsdeild Evrópu klukkan 13:00 í dag en langt er mill leikja í keppninni og liðið hefur þurft að haga æfingum sínum með öðrum hætti en í sumar þegar mest gekk á.
„Við erum búnir að nýta tímann til að æfa virkilega vel. Í sumar þegar mest var í gangi tókum við aldrei almennilega æfingu. Það voru bara leikir, endurheimt, og enn fleiri leikir og fundir," sagði Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings á fréttamannafundi á Kópavogsvelli í gær.
„Síðustu 3-4 vikur skynja ég mikla breytingu á leikmannahópnum hvað taktík varðar. Við erum búnir að vera með allt á hreinu og það er bara ein ástæða fyrir því og hún er að við höfum fengið góðan tíma saman úti á æfingasvæðinu," bætti hann við.
Eitt af því sem Víkingur hefur þó gert frá síðasta leik gegn Noah í Armeníu var að spila gegn HK og FH í Bose mótinu.
„Þeir leikir hafa verið gríðarlega mikilvægir fyrir okkur. HK leikurinn var fyrir leikmenn sem hafa mjög lítið eða ekkert spilað. FH leikurinn var svo 50/50," sagði Arnar. „Leikmenn sem munu byrja gegn Djurgarden fengu 45 mínútur í þeim leik. Þessir leikir hafa verið virkilega mikilvægir og líka fyrir stráka sem hafa fengið lítið að spila. Menn ná að halda taktinum og verða meira tilbúnir í verkefnið á morgun þegar þeir koma af bekknum."
Andstæðingurinn í dag er sænska liðið Djurgarden sem er eins og Víkingur með sjö stig í Sambandsdeildinni eftir tvo sigra og eitt jafntefli.
„Mér finnst þeir mjög sterkt lið, þetta er ekkert ótrúlegt lið á neinu sviði en þeir gera alla hlutina mjög vel. Þeir eru traustir, með skandinavískt hugarfar. Spila 4-4-2 eins og Svíarnir eru frægir fyrir og hafa náð í mjög góð úrslit hingað til í Evrópukeppninni," sagði Arnar.
„Nú erum við að mæta liðum sem eru ofar en við, svo er LASK frá Austurríki þar á eftir. Mér finnst eins og tvö sterkustu liðin séu eftir af þeim sem við spilum við. Þeir hafa að miklu að keppa og koma hingað með dýrvitlausa stuðningsmenn. Þetta verður krefjandi verkefni fyrir okkar leikmenn. Hafandi sagt það erum við með stórkostlegan heimavallarárangur í Evrópu á undanförnum árum, höfum spilað 12 heimaleiki og unnið 8 þeirra, gert þrjú jafntefli og bara tapað einum. Þar hafa stór lið fallið í valinn á heimavelli svo við erum hvergi bangnir og mætum fullir sjálfstrausts."
Athugasemdir