Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 13. febrúar 2023 15:06
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Höttur/Huginn fær leikmann með reynslu úr La Liga (Staðfest)
Dani Ndi.
Dani Ndi.
Mynd: Getty Images
Höttur/Huginn, sem leikur í 2. deild karla, hefur staðfest býsna áhugaverð félagaskipti því félagið hefur samið við miðjumanninn Dani Ndi um að leika með félaginu í sumar.

Þessi 27 ára gamli miðjumaður á ansi áhugaverðan feril að baki en hann á til að mynda leiki með Sporting Gijon í spænsku úrvalsdeildinni.

Þá hefur hann einnig spilað með Mallorca og Istra í Króatíu en hann hefur síðustu ár verið að leika í neðri deildunum á Spáni. Hann á fimm A-landsleiki að baki fyrir Kamerún en það gerist ekki á hverjum degi að leikmaður með svona feril komi til Íslands, hvað þá í 2. deild.

„Dani sem er fæddur 1995 getur leyst allar fremstu stöður hvort sem það er á miðjum vellinum eða úti á kanti," segir í tilkynningu Hattar/Hugins.

„Þetta kemur í gegnum Nacho Poveda sem spilaði með okkur 2021 og rekur nú umboðsskrifstofuna Áfram football. Við höfum tekið nokkra leikmenn í gegnum hann og þegar hann benti okkur á hann, þá þurftum við ekki að hugsa okkur mikið um," segir Brynjar Árnason, þjálfari Hattar/Hugins, við Fótbolta.net.

„Ferilinn hans á töluvert hærra stigi en það sem við eigum að venjast og eftir einn fund með honum þá vorum við ákveðnir í að reyna klára þetta hratt - sem svo tókst."

Hann segir að leikmaðurinn hafi strax verið opinn fyrir þessum möguleika. „Hann var strax opinn fyrir þessu og svo hjálpaði það mikið að Nacho var hérna sjálfur og líkaði mjög vel," segir Brynjar en leikmaðurinn er væntanlegur til landsins í mars.

Höttur/Huginn endaði í fimmta sæti 2. deildar síðasta sumar en liðið ætlar sér greinilega enn stærri hluti næsta sumar.
Athugasemdir
banner
banner