mán 13. júní 2022 20:52
Brynjar Ingi Erluson
Rúnar svekktur með jöfnunarmarkið - „Eins og eitthvað hafi dáið innra með mér"
Rúnar Alex Rúnarson
Rúnar Alex Rúnarson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson er ekki viss um að annað mark Ísraels hafi verið gilt en hann ræddi við Viaplay eftir 2-2 jafnteflið á Laugardalsvelli í kvöld.

Lestu um leikinn: Ísland 2 -  2 Ísrael

Rúnar átti nokkuð góðan leik í marki Íslands. Fyrsta mark Ísraels fór af Daníel Leó Grétarssyni og í netið en það síðara var ansi tæpt.

Gestirnir skölluðu þá boltann í átt að marki og náði Rúnar að setja hnéð í boltann en ekki var ljóst hvort boltinn hafi verið inni eða ekki. Markið var dæmt gott og gilt eftir skoðun VAR en það var engin marklínutækni í boði.

Markvörðurinn var svekktur með úrslitin í dag en hann var ekki viss um að boltann hafi verið inni.

Sjáðu markið hér

„Nei eða þú veist. Í mómentinu held ég að þetta sé góð varsla. Ég er inn í markinu og næ að setja hnéð út og næ að mér finnst að koma boltanum í burtu. Það er erfitt að rífast um það eitthvað," sagði Rúnar.

„Mér líður eins og það hafi eitthvað dáið innra með mér. Þetta er svo ógeðslega svekkjandi. Við leggjum okkur 100 prósent fram og fáum færi til að klára þennan leik. Við fylgjum planinu nokkuð vel að stærstum hluta leiks og að fá eitthvað 50-50 mark og eitt sem breytir um stefnu. Svona hlutir gerast í fótboltanum og leiðinlegt að geta ekki gefið stuðningsmönnum meira," sagði hann ennfremur.
Athugasemdir
banner
banner