banner
   mið 13. október 2021 11:11
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Staðfestir að Brynjar Björn verði áfram þjálfari HK
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjar Björn Gunnarsson verður þjálfari HK í Lengjudeildinni á næsta tímabili. Brynjar sagði í samtali við Fótbolta.net fyrir lokaleik tímabilsins að hann yrði áfram en í lokaumferðinni féllu hlutirnir ekki með HK og féll liðið niður um deild.

Formaður HK, Frosti Reyr Rúnarsson, staðfesti áframhaldandi samstarf við Brynjar í samtali við Fótbolta.net.

„Við ætlum að gefa okkur tíma í að finna aðstoðarmann," sagði Frosti aðspurður um eftirmann Viktor Bjarka Arnarssonar sem tók við starfi hjá KR eftir tímabilið.

„Auðvitað hefðum við viljað vera í efstu deild en tökum þessu og höldum áfram. Við ætlum að vera í baráttunni um að komast upp næsta sumar."

Ásgeir Börkur Ásgeirsson og Guðmundur Þór Júlíusson sömdu við uppeldisfélögin sín, Fylki og Fjölni, á dögunum. Voru vonbrigði að missa þá?

„Það var alveg viðbúið að þeir gætu farið. Ef menn eru með lausa samninga þá er alltaf einhver ástæða fyrir því, það getur verið sameiginleg ákvörðun. Þeir stóðu sig vel fyrir HK, eru flottir einstaklingar og gaman að vinna með þeim. Allt hefur sinn tíma," sagði Frosti.
Athugasemdir
banner
banner