Man Utd hefur áhuga á Yoro - Osimhen í forgangi hjá Chelsea - Napoli, Juve og Atletico hafa áhuga á Greenwood
   þri 14. apríl 2020 16:50
Magnús Már Einarsson
Áskorun - 5 íþróttasögur í Sjónvarpi Símans
Þættir í umsjón Gulla Jóns hefjast á fimmtudag
Elísabet Gunnarsdóttir.
Elísabet Gunnarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Gunnlaugur Jónsson er þáttastjórnandi.
Gunnlaugur Jónsson er þáttastjórnandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þættirnir ÁSKORUN verða sýndir á Sjónvarpi Símans næstu fimm fimmtudagskvöld. Þetta er íþróttaþættir í umsjón Gunnlaugs Jónssonar þar sem kafað er djúpt í fimm ólíkar sögur.

Í þáttunum er rætt við afreksfólk í íþróttum sem hefur með einstöku hugarfari og þrautseigju sigrast á ólíkum áskorunum í gegnum lífið, innan vallar og utan. Áhorfendur kynnast viðmælendum í sínu náttúrulega umhverfi og fá að sjá hliðar sem fáir ef nokkrir þekkja, að baki sögum sem flestir hafa heyrt; kynnast manneskjunni undir búningnum.

Rætt er við samstarfsfólk, fjölskyldu og vini og kafað undir yfirborðið í sögu hvers og eins.

Meðal viðmælenda eru knattspyrnuþjálfarinn Elísabet Gunnarsdóttir sem flutti til Svíþjóðar eftir stormasaman feril hér heima og er nú að hefja sitt 13. tímabil hjá Kristianstad í Svíþjóð; sveitastrákurinn Tryggvi Snær Hlinason sem vissi ekki hvað körfubolti var fyrir nokkrum árum en er nú atvinnumaður í greininni og Ólympíufarinn og Akurnesingurinn Ingi Þór Jónsson sem fór inn í skápinn sem íþróttamaður þegar hann kom út úr honum í einkalífinu.

Guðmundur Guðmundsson handboltamaður og -þjálfari setti sér háleit markmið strax í bernsku og sér þau nú eitt af öðru rætast og stelpurnar í Evrópumeistaraliði Gerplu frá 2010, lýsa mögnuðum samstarfsanda sem skilaði þeim ítrekað á pall en kostaði líka vináttu og fórnir.

Fyrsti þátturinn er um Elísabetu Gunnarsdóttir sem horfði á 1000 fótboltaæfingar með strákunum áður en hún þorði að mæta á æfingu sjálf. Verandi leikmaðurinn sem enginn þjálfari vill hafa í liðinu sínu varð hún einn farsælasti knattspyrnuþjálfari kvennaknattspyrnunnar á Norðurlöndum.

Elísabet deilir sögum af átökum og afrekum í einkalífi og íþróttum og hún opnar sig um hluti sem hún hefur ekki opnað sig um áður. Elísabet er að fara á sitt þrettánda tímabil sem þjálfari Kristianstad í Svíþjóð.

Í þessari stiklu komum við til leiks árið 2003 þegar nýbúið er að reka Elísabetu frá ÍBV - hún tekur við 2.flokki Breiðabliks því hún sá að það væri líklegast að hún fengi boð sem þjálfari meistaraflokk liðsins í kjölfarið en hlutirnir fóru á aðra leið en hún hafði skipulagt.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner