Hörður Björgvin Magnússon, leikmaður Panathinaikos í Grikklandi, mætti á sína fyrstu æfingu með liðinu í dag eftir að hafa verið frá í átta mánuði vegna meiðsla.
Varnarmaðurinn sleit krossband í leik gegn AEK í september og fór í kjölfarið undir hnífinn.
Við tók langt og strangt endurhæfingaferli. Síðustu mánuði hefur hann æft einn með styrktarþjálfara en í dag mætti hann á sína fyrstu æfingu með liðinu.
Panathinaikos á ekki lengur möguleika á að vinna grísku deildina, en það mætir erkifjendum sínum í Olympiakos í lokaumferðinni á sunnudag.
Hörður verður ekki í leikmannahópi Panathinaikos í þeim leik en þó er ágætis möguleiki á að hann verði í hópnum sem mætir Aris í bikarúrslitum 25. maí næstkomandi.
Mánuði eftir að hann meiddist framlengdi hann samning sinn við Panathinaikos um eitt ár og mun hann því spila áfram með liðinu á næstu leiktíð.
Athugasemdir