Franski miðvörðurinn Raphaël Varane er búinn að samþykkja samning hjá ítalska félaginu Como sem er að gera áhugaverða hluti á leikmannamarkaðinum.
Varane á eftir að gangast undir læknisskoðun hjá félaginu og verður kynntur sem nýr leikmaður í næstu viku.
Varane kemur á frjálsri sölu eftir þrjú ár hjá Manchester United, en þar áður var hann lykilmaður í ógnarsterku liði Real Madrid.
Þessi 31 árs gamli miðvörður lék 93 landsleiki fyrir Frakkland en lagði landsliðsskóna á hilluna eftir HM 2022.
Ljóst er að Varane verður gríðarlegur liðsstyrkur fyrir Como, sem hefur einnig verið að sækja fleiri þekkta leikmenn í sumar. Andrea Belotti er kominn til félagsins ásamt Gabriel Strefezza og Alberto Dossena og auk þeirra eru Pau López, Pepe Reina og Alberto Moreno allir á leiðinni.
Nýliðarnir ætla ekki að falla aftur niður í Serie B og hefur Cesc Fabregas, þjálfari og hluteigandi í Como, tekist að sannfæra marga leikmenn um að skipta yfir til félagsins.
Athugasemdir