Derby County er búið að staðfesta brottrekstur Phillip Cocu úr starfi. Derby hefur farið gríðarlega illa af stað í Championship og situr óvænt á botni deildarinnar með 6 stig eftir 11 umferðir.
Cocu og Derby komust að samkomulagi um starfslok en Cocu tók við Derby eftir að Frank Lampard var fenginn yfir til Chelsea í fyrra. Derby mistókst að ná umspilssæti á fyrstu leiktíð Cocu og var hrikaleg byrjun á nýrri leiktíð meira en nóg til að fylla mælinn.
Chris van der Weerden og Twan Scheepers hafa einnig yfirgefið félagið en þeir komu ásamt Cocu í fyrra.
„Félagið vill þakka Phillip og starfsteymi hans fyrir vel unnin störf á afar erfiðum tímum," segir meðal annars í yfirlýsingu frá Derby. Ekki var minnst á bráðabirgðarstjóra.
Hinn fimmtugi Cocu gerði garðinn frægan á knattspyrnuvellinum með PSV, Barcelona og hollenska landsliðinu. Hann stýrði PSV í fimm ár og tók svo við Fenerbahce 2018 en gekk herfilega þar og var rekinn eftir nokkra mánuði.
Athugasemdir